Erna Björk Sigurðardóttir, varnarmaður Breiðabliks og íslenska landsliðsins, getur eftir allt saman spilað með Breiðabliki í sumar en Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Breiðabliks staðfesti í samtali við Fótbolta.net að Erna Björk sé ekki með slitið krossband eins og haldið var.
Erna Björk meiddist á landsliðsæfingu í mars en fór í speglun í gær og þá kom í ljós að krossbandið er illa farið en ekki slitið. Erna Björk var búin að slíta krossband þrisvar á ferlinum en virðist loksins hafa haft smá heppni með sér.
Erna Björk getur ekki farið að æfa fyrr en eftir 4 til 6 vikur en ætti að geta náð seinni hluta tímabilsins og ætti því að geta verið með Blikum í Meistaradeildinni í haust.
Erna Björk getur spilað með Blikum í sumar - krossbandið ekki slitið
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
