„Ég var ánægður með sóknarleikinn hjá okkur í dag því við erum að skapa okkur fín færi allan leikinn. Aron tók okkur aftur á móti af lífi í markinu með ótrúlegri markvörslu," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari HK, við Vísi í kvöld.
HK tapaði þá öðru sinni á nokkrum dögum fyrir Haukum. Munurinn á liðunum í kvöld lá einna helst í markvörslunni.
Hún var engin hjá HK á meðan Aron Rafn Eðvarðsson varði frábærlega í seinni hálfleik hjá Haukum.
„Aron gerði gæfumuninn í þessum leik að mínu mati. Við náðum svo aldrei takti í vörninni í kvöld og þar af leiðandi kom engin markvarsla. Markverðirnir treystu ekki vörninni og það kom ekki þessi tenging sem hefur verið hjá okkur upp á síðkastið."