„Sóknarlega var þetta gríðarlega erfitt hjá okkur þar sem Birkir Ívar var að verja alveg svakalega en ég var samt ekkert áhyggjufullur þar sem við vorum inni í leiknum alveg þangað til tíu mínútur voru eftir í stöðunni 14-14.
Mér fannst þetta þá vera að smella hjá okkur og ef við hefðum komist yfir þá held ég að þetta hefði ekki farið eins og þetta fór," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í leikslok eftir 23-15 tap liðs síns gegn Haukum í úrslitaleik Eimskipsbikarsins á laugardag.
„Við áttum hins vegar þess í stað mjög slæman leikkafla þegar þeir skipta yfir í 6-0 vörnina og náðum ekki að bregðast við því. Lokastaðan segir því ekkert um það hvernig leikurinn spilaðist fram að þessum slæma leikkafla. Ég hélt að þetta ætlaði að stefna í einhverja háspennu og framlengingu en það varð ekki tilfellið.
Mér fannst dómararnir Anton og Hlynur dæma vel yfir heildina litið en á þessum lokaleikkafla fannst mér flest öll vafaatriði falla með Haukum og nokkrir furðudómar litu dagsins ljós. Það þýðir hins vegar ekkert að tala um það núna og svona er bara handboltinn stundum.
Ég tek samt auðvitað ekkert af Haukunum því þeir risu upp á lokamínútunum og kláruðu dæmið og það er það sem skilur að þegar upp er staðið. Ég óska Haukum bara til hamingju með sigurinn," sagði Óskar Bjarni.