Landsliðskonan Rakel Hönnudóttir er greinilega mjög heimakær því hún hefur ákveðið að spila áfram með Þór/KA í Pepsi-deildinni í stað þess að fara utan til Svíþjóðar í atvinnumennsku. Þetta er staðfest á heimasíðu Þórs í dag.
Rakel fór utan til Svíþjóðar á dögunum þar sem hún æfði með úrvalsdeildarliði Jitex. Það gekk ágætlega því hún kom heim með samningstilboð.
Eftir nokkra umhugsun hefur Rakel ákveðið að hafna tilboði Jitex og spila áfram á Akureyri.
Það verður því einhver bið á því að Rakel spreyti sig í sterkari deild en að sama skapi gleðitíðindi fyrir Þór/KA þar sem Rakel hefur farið á kostum með liðinu síðustu ár.