Aron Kristjánsson segir erfitt að kyngja því að missa Gunnar Berg Viktorsson í leikbann fyrir oddaleik Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á morgun.
Gunnar Berg, leikmaður Hauka, fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot á lokasekúndum venjulegs leiktíma í leik liðanna í gær. Valsmönnum tókst ekki að skora í kjölfarið og var því leikurinn framlengdur, þar sem Valsmenn unnu tveggja marka sigur.
Í morgun ákvað svo aganefnd HSÍ að dæma Gunnar Berg í leikbann þar sem hann þótti hafa brotið „gróflega af sér á síðustu mínútu leiks í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrslit leiks."
„Í fyrsta lagi fannst mér það ekki í lagi að hann hafi fengið rautt. Þetta brot verðskuldaði ekki meira en tveggja mínútna brottvísun - sérstaklega miðað við hvernig leikurinn hafði farið fram."
„En hann fékk þetta rauða spjald og aganefndin fer eftir ákveðinni reglugerð þegar hún dæmir hann í leikbannið. En mér fannst þetta ekki vera gróft brot og verðskulda ekki meira en tveggja mínútna brottvísun."
Hann segir vissulega að þetta hafi áhrif á leik Hauka á morgun. „Gunnar Berg er okkar öflugasti varnarmaður og hefur verið herforinginn í okkar varnarleik síðustu ár."
„Þetta hefur líka áhrif á breiddina hjá okkur en það þýðir ekki að staldra of lengi við það. Nú er það næsta mál að finna úr því hvernig við bregðumst við og leysum þetta mál. Við ætlum ekki að láta umgjörð leiksins hafa áhrif á það að við ætlum okkur að landa þessum titli á morgun."
„Leikmannahópurinn mun standa enn þéttar saman fyrir vikið og þetta mun efla okkur fyrir leikinn á morgun."