Hörmungar á Haítí Sverrir Jakobsson skrifar 26. janúar 2010 06:00 Mikill vandi steðjar nú að Haítí eftir óvenju harðan jarðskjálfta sem varð þar fyrir tveimur vikum sem kostaði um 200.000 manns lífið. Hörmungarnar á Haítí eru þó ekki aðeins af völdum náttúrunnar því að landið er þar að auki óvenju illa búið til þess að takast á við slíkan vanda. Þjóðartekjur á mann eru með þeim lægstu í veröldinni og mikill meirihluti landsmanna býr undir fátæktarmörkum á meðan helmingur þjóðartekna rennur til 1% þjóðarinnar. Fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra lánastofna ríkir meira viðskiptafrelsi í Haítí en flestum iðnríkjum; tollar þar eru mjög lágir með þeim afleiðingum að innlend landbúnaðarframleiðsla hefur orðið undir í samkeppni við ríkisstyrktar bandarískar landbúnaðarafurðir (s.s. hrísgrjón) og matargjafir frá erlendum hjálparstofnunum. Þjóðartekjur hafa því farið lækkandi en erlendar skuldir hafa vaxið og nú eru um 70 prósent tekna ríkisins erlend lán eða aðstoð. Stjórnvöld á Haítí eru því fullkomlega háð erlendum styrktaraðilum og sú stefna sem rekin hefur verið að undirlagi þeirra hefur skilað hinum örsnauða meirihluta landsmanna frekar litlu. Einungis þriðjungur barna lýkur grunnskólanámi, um þriðjungur hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og um þriðjungur barna þjáist af krónískri vannæringu. Eyðileggingin sem fylgdi jarðskjálftanum margfaldar því neyð sem var afar sár fyrir. Því miður má færa ágæt rök fyrir því að neyðin sem fólk á Haítí býr við núna sé frekar rangsnúin refsing fyrir þann kjark og stórhug sem forfeður þess sýndu fyrir tveimur öldum. Þá varð bylting á Haítí í kjölfar frönsku byltingarinnar. Landið kallaðist þá Saint-Domingue og var mikilvægur hlekkur í alþjóðahagkerfi þrælahaldsins. Þar framleiddu innfluttir þrælar frá Afríku kaffi og sykur fyrir evrópskan markað og sköpuðu evrópsku nýlenduherrunum meiri tekjur en allar nýlendurnar þrettán sem skömmu áður mynduðu Bandaríkin. Eftir að franska byltingin hófst gerðu þrælarnir uppreisn og lýstu yfir stofnun frjáls ríkis á Haítí. Þeir hrundu tilraunum Frakka til að bæla uppreisnina niður og með stofnun sjálfstæðs ríkis 1804 var þrælahald og mismunun kynþátta bönnuð, löngu áður en önnur ríki Ameríku fylgdu í kjölfarið. Evrópa hefndi sín hins vegar með viðskiptabanni að tilstuðlan Frakka og á fáeinum áratugum var efnahagur landsins í molum. Í nauðarsamningum 1825 var Haítí gert að greiða frönsku þrælahöldurum skaðabætur fyrir að hafa afnumið þrælahald. Voru þær upphæðir svo háar að mörgum áratugum síðar, um aldamótin 1900, fóru 80 prósent af fjárlögum ríkisins í að greiða skaðabæturnar og greiðslu þeirra lauk ekki fyrr en 1947. Með þessum sannkölluðu drápsklyfjum var landinu haldið í stöðugri fátækt og árin 1915-1934 var það hernumið af Bandaríkjunum. Þeir skipulögðu hagkerfi landsins til að tryggja endurgreiðslu erlendra skulda og efldu herinn sem síðan þá hefur stöðugt gripið inn í stjórn landsins og tryggt að framgangur lýðræðisins hefur orðið lítill. Fyrir tveimur áratugum var þó efnt til lýðræðislegra kosninga sem presturinn Jean-Bertrand Aristide vann með yfirburðum enda naut hann mikils stuðnings meðal fátækustu borgara landsins. Skömmu síðar rændi herinn völdum en fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna var herstjórninni velt frá völdum og Aristide endurreistur árið 1994. Stjórn hans hafði þó litla möguleika á að breyta valdahlutföllum í landinu þar sem hún var afar háð erlendu fjármagni og þeim skilmálum sem því fylgdu. Þegar Aristide var aftur kjörinn forseti árið 2000 setti hann fram háværar kröfur að Frakkar ættu nú að endurgreiða skaðabæturnar sem Haítí var gert að þola vegna afnám þrælahalds. Honum var aftur steypt af stóli 2004 en í þetta sinn kom Bandaríkjastjórn honum ekki til aðstoðar heldur studdi við bakið á valdaránsmönnum. Hið sama gerði ríkisstjórn Frakklands. Pólitískar afleiðingar af þessu síðara valdaráni voru ekki einhlítar og gamall bandamaður Aristides, Réné Preval, var síðar kjörinn forseti Haítí. Svigrúm hans til umbóta er engu meira en fyrirrennara hans þar sem landið er háð stuðningi erlendra lánastofnana. Jarðskjálftinn og eyðileggingin af völdum hans hefur valdið auknum áhuga alþjóðasamfélagsins á Haítí en gallinn er sá að slíkur áhugi hefur sjaldnast boðað gott fyrir landsmenn. Ný „raflostsmeðferð" í boði alþjóðasamfélagsins er ekki það sem Haítí þarf á að halda núna heldur viðurkenning á því sögulega óréttlæti sem fyrsta frjálsa ríkið í hinum vestræna heimi hefur verið beitt í gegnum tíðina. Fá ríki hafa meiri þörf eða rétt á því að losna undan oki erlendra skulda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Halldór 11.01.2025 Rafn Ágúst Ragnarsson Halldór Hugvíkkandi meðferðir eru fortíð okkar, nútíð og framtíð Sara María Júlíudóttir Skoðun Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Upprætum óttann við óttann Sóley Dröfn Davíðsdóttir Skoðun Komdu út að „Vetrar-leika“ í Austurheiðum Reykjavíkur Sara Björg Sigurðardóttir Skoðun Framsækin ríkisstjórn í umhverfis- og auðlindamálum: Nýi stjórnarsáttmálinn. Stefán Jón Hafstein Skoðun Hjólað inní framtíðinna Búi Bjarmar Aðalsteinsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Ertu á krossgötum? Þuríður Santos Stefánsdóttir Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun
Mikill vandi steðjar nú að Haítí eftir óvenju harðan jarðskjálfta sem varð þar fyrir tveimur vikum sem kostaði um 200.000 manns lífið. Hörmungarnar á Haítí eru þó ekki aðeins af völdum náttúrunnar því að landið er þar að auki óvenju illa búið til þess að takast á við slíkan vanda. Þjóðartekjur á mann eru með þeim lægstu í veröldinni og mikill meirihluti landsmanna býr undir fátæktarmörkum á meðan helmingur þjóðartekna rennur til 1% þjóðarinnar. Fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra lánastofna ríkir meira viðskiptafrelsi í Haítí en flestum iðnríkjum; tollar þar eru mjög lágir með þeim afleiðingum að innlend landbúnaðarframleiðsla hefur orðið undir í samkeppni við ríkisstyrktar bandarískar landbúnaðarafurðir (s.s. hrísgrjón) og matargjafir frá erlendum hjálparstofnunum. Þjóðartekjur hafa því farið lækkandi en erlendar skuldir hafa vaxið og nú eru um 70 prósent tekna ríkisins erlend lán eða aðstoð. Stjórnvöld á Haítí eru því fullkomlega háð erlendum styrktaraðilum og sú stefna sem rekin hefur verið að undirlagi þeirra hefur skilað hinum örsnauða meirihluta landsmanna frekar litlu. Einungis þriðjungur barna lýkur grunnskólanámi, um þriðjungur hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og um þriðjungur barna þjáist af krónískri vannæringu. Eyðileggingin sem fylgdi jarðskjálftanum margfaldar því neyð sem var afar sár fyrir. Því miður má færa ágæt rök fyrir því að neyðin sem fólk á Haítí býr við núna sé frekar rangsnúin refsing fyrir þann kjark og stórhug sem forfeður þess sýndu fyrir tveimur öldum. Þá varð bylting á Haítí í kjölfar frönsku byltingarinnar. Landið kallaðist þá Saint-Domingue og var mikilvægur hlekkur í alþjóðahagkerfi þrælahaldsins. Þar framleiddu innfluttir þrælar frá Afríku kaffi og sykur fyrir evrópskan markað og sköpuðu evrópsku nýlenduherrunum meiri tekjur en allar nýlendurnar þrettán sem skömmu áður mynduðu Bandaríkin. Eftir að franska byltingin hófst gerðu þrælarnir uppreisn og lýstu yfir stofnun frjáls ríkis á Haítí. Þeir hrundu tilraunum Frakka til að bæla uppreisnina niður og með stofnun sjálfstæðs ríkis 1804 var þrælahald og mismunun kynþátta bönnuð, löngu áður en önnur ríki Ameríku fylgdu í kjölfarið. Evrópa hefndi sín hins vegar með viðskiptabanni að tilstuðlan Frakka og á fáeinum áratugum var efnahagur landsins í molum. Í nauðarsamningum 1825 var Haítí gert að greiða frönsku þrælahöldurum skaðabætur fyrir að hafa afnumið þrælahald. Voru þær upphæðir svo háar að mörgum áratugum síðar, um aldamótin 1900, fóru 80 prósent af fjárlögum ríkisins í að greiða skaðabæturnar og greiðslu þeirra lauk ekki fyrr en 1947. Með þessum sannkölluðu drápsklyfjum var landinu haldið í stöðugri fátækt og árin 1915-1934 var það hernumið af Bandaríkjunum. Þeir skipulögðu hagkerfi landsins til að tryggja endurgreiðslu erlendra skulda og efldu herinn sem síðan þá hefur stöðugt gripið inn í stjórn landsins og tryggt að framgangur lýðræðisins hefur orðið lítill. Fyrir tveimur áratugum var þó efnt til lýðræðislegra kosninga sem presturinn Jean-Bertrand Aristide vann með yfirburðum enda naut hann mikils stuðnings meðal fátækustu borgara landsins. Skömmu síðar rændi herinn völdum en fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna var herstjórninni velt frá völdum og Aristide endurreistur árið 1994. Stjórn hans hafði þó litla möguleika á að breyta valdahlutföllum í landinu þar sem hún var afar háð erlendu fjármagni og þeim skilmálum sem því fylgdu. Þegar Aristide var aftur kjörinn forseti árið 2000 setti hann fram háværar kröfur að Frakkar ættu nú að endurgreiða skaðabæturnar sem Haítí var gert að þola vegna afnám þrælahalds. Honum var aftur steypt af stóli 2004 en í þetta sinn kom Bandaríkjastjórn honum ekki til aðstoðar heldur studdi við bakið á valdaránsmönnum. Hið sama gerði ríkisstjórn Frakklands. Pólitískar afleiðingar af þessu síðara valdaráni voru ekki einhlítar og gamall bandamaður Aristides, Réné Preval, var síðar kjörinn forseti Haítí. Svigrúm hans til umbóta er engu meira en fyrirrennara hans þar sem landið er háð stuðningi erlendra lánastofnana. Jarðskjálftinn og eyðileggingin af völdum hans hefur valdið auknum áhuga alþjóðasamfélagsins á Haítí en gallinn er sá að slíkur áhugi hefur sjaldnast boðað gott fyrir landsmenn. Ný „raflostsmeðferð" í boði alþjóðasamfélagsins er ekki það sem Haítí þarf á að halda núna heldur viðurkenning á því sögulega óréttlæti sem fyrsta frjálsa ríkið í hinum vestræna heimi hefur verið beitt í gegnum tíðina. Fá ríki hafa meiri þörf eða rétt á því að losna undan oki erlendra skulda.
Framsækin ríkisstjórn í umhverfis- og auðlindamálum: Nýi stjórnarsáttmálinn. Stefán Jón Hafstein Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Framsækin ríkisstjórn í umhverfis- og auðlindamálum: Nýi stjórnarsáttmálinn. Stefán Jón Hafstein Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun