Þjálfari kvennaliðs Breiðabliks óttast að Erna Björk Sigurðardóttir, fyrirliði Breiðabliks og byrjunarliðsmaður í íslenska kvennalandsliðinu, sé með slitin krossbönd. Erna Björk meiddist á landsliðsæfingu um helgina. Vefmiðillinn Sport.is greindi frá þessu í dag.
Þetta yrði þá í fjórða skiptið á ferlinum sem Erna Björk verður fyrir því áfalli að slíta krossbönd á hné en hún sleit einnig krossbönd í lok september 2000, í lok ágúst 2002 og í apríl 2007.
Jóhannesi Karl Sigursteinsson þjálfari Breiðabliks sagði í viðtali við sport.is að þetta gæti einnig verið annaðhvort liðþófi eða liðbönd.
Erna Björk blómstraði sem miðvörður með Breiðabliksliðinu í fyrrasumar og var einn besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna en hún vann sér meðal annars inn byrjunarliðssæti í íslenska kvennalandsliðinu.
Erna Björk er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Serbíu og Króatíu 27. og 31. mars og þessi meiðsli þýða að hún verður ekki með í þessum leikjum.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, velur væntanlega nýjan leikmann í hópinn í staðinn, en hann þarf einnig að finna glænýjan miðvörð við hlið fyrirliðans Katrínar Jónsdóttur því Guðrún Sóley Gunnarsdóttir og Erna Björk hafa leyst þá stöðu og þær eru núna báðar meiddar.
