Undanúrslitaleikir VISA-bikars kvenna fara fram í dag, Valur tekur á móti Þór/KA á Vodafone-vellinum og á sama tíma spila 1. deildarlið ÍBV og Stjarnan á Hásteinsvellinum í Vestmannaeyjum. Báðir leikirnir hefjast klukkan 14.00.
Valskonur eru núverandi bikarmeistarar og geta komist í úrslitaleikinn þriðja árið í röð. Þór/KA eða önnur kvennalið frá Akureyri (KA, Þór eða ÍBA) hafa aldrei komist í úrslitaleikinn. Valur vann deildarleikinn við Þór/KA 4-2 þegar liðin mættust á Akureyri fyrr í sumar.
Stjörnukonur hafa tapað í undanúrslitum undanfarin tvö ár en í bæði skiptin fyrir Val. Stjarnan komst í eina skiptið í bikarúrslitleik fyrir 17 árum síðan en ÍBV hefur tvisvar sinnum komist í bikarúrslitleikinn, 2003 og 2004.
ÍBV getur orðið fyrsta B-deildarliðið til að komast í bikarúrslitaleik kvenna síðan að Keflavík fór í úrslitaleikinn árið 1991.