Freyr Alexandersson var stoltur maður eftir að Valur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Freyr stýrði liðinu einn annað árið í röð, og í bæði skiptin vann hann tvöfalt með liðið.
Freyr var áður aðalþjálfari með Elísabetu Gunnarsdóttur árið 2008 auk þess sem hann var viðloðinn þjálfun liðsins árið 2007.
Þetta er í fimmta árið í röð sem Valur verður Íslandsmeistari og það tíunda í sögunni.
Þar sem bæði Þór/KA og Breiðablik töpuðu í dag gat Valur orðið meistari og eftir að hafa lent undir eftir nokkrar sekúndur röðuðu þær inn átta mörkum og tryggðu sér titilinn.
"Ég átti aldrei von á því að FH ynni Breiðablik, með fullri virðingu fyrir FH. Þetta kom skemmtilega á óvart," sagði Freyr brosmildur.
"Eftir að við heyrðum úrslitin var auðveldara að peppa liðið upp í leikinn. Þær fóru inn á með fiðrildi í maganum og skítaglott á vör," sagði Freyr og brosti.
"En við vorum búin að leggja leikinn upp og við breyttum engu sérstöku. Þrátt fyrir áfall á fyrstu mínútu gekk upp að klára þetta," sagði Freyr.
Framundan er partý hjá liðinu sem fær loksins að fagna á laugardegi. "KSÍ er hrifið af því að hafa lokaleikina á sunnudögum en loksins fær liðið að fagna á laugardagskvöldi, og það eiga þær svo sannarlega skilið," sagði Freyr sem ætlar þó ekki að halda liðspartýið í kvöld.
"En ég er hrikalega stoltur af liðinu," sagði Freyr brosandi.
Nánar er rætt við Frey í Fréttablaðinu á mánudaginn.
Freyr: Stelpurnar eiga skilið að fagna loksins á laugardegi
Hjalti Þór Hreinsson skrifar

Mest lesið




„Eins gott að þeir fari að fokking semja“
Körfubolti

Ótrúleg markasúpa í Katalóníu
Fótbolti


Aþena vann loksins leik
Körfubolti

Inter í undanúrslit
Fótbolti

