Ólafur Páll Snorrason hefur verið valinn í A-landslið karla í fótbolta fyrir leikinn á móti Liechtenstein á miðvikudag.
Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur dregið sig út úr hópnum vegna meiðsla og valdi Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari nafna sinn í staðinn.
Ólafur Páll hefur aldrei áður verið valinn í A-landsliðið, en hann hefur leikið fyrir öll yngri landslið Íslands. Hann hefur leikið mjög vel með FH-ingum í sumar og er sem dæmi með 4 mörk og 4 stoðsendingar í fyrstu fimmtán umferðunum í Pepsi-deildinni.
Leikur Íslands og Liechtensteins fer fram á Laugardalsvelli á miðvikudag og hefst kl. 19:30.