Haukar sigruðu Hafnarfjarðaslaginn, 24-25 í dramatískum leik í kvöld. Þetta var toppslagurinn í N1-deild karla í handbolta og var stemningin stórkostleg í Kaplakrika í kvöld.
„Þetta var alveg frábært, mikill sigur fyrir íþróttina, deildina og að sjálfsögðu okkur. Þetta er búið að vera svona síðustu tvö árin eftir að FH-ingarnir komu aftur upp, bara algjör sýning fyrir áhorfendur og það er alveg frábært að bærinn eigi tvö svona sterk lið sem geta spilað svona leiki með reglulega millibili, þessir leikir eru alltaf svona," sagði Einar Örn, hornamaður Hauka, ánægður eftir leik.
„Ég var ánægður vörnina í dag þegar að hún loks hrökk í gang. En aftur á móti var sóknarleikurinn ekki góður og við fundum aldrei taktinn almennilega þar. En ég var ánægður með hvað vörnin hélt vel", sagði Einar.
S
tigin í kvöld voru gríðarlega mikilvæg fyrir Hauka sem er á toppi deildarinnar og vill Einar meina að góð liðsheild einkenni liðið og ekki sé um meistaraheppni að ræða.
„Góður liðsandi einkennist af því að brotna ekki þegar það er mikið í húfi og við sýndum það í kvöld og höfum sýnt oft í vetur að við erum gríðarlega sterkir þegar á reynir. Ég held að sigurinn segi meira til um liðsheild og stemningu en einhverja meistaraheppni," sagði Einar Örn, skælbrosandi eftir sigurinn í kvöld.