ÍR-ingar tóku toppsætið af nágrönnum sínum úr efra-Breiðholtinu eftir 2-1 sigur á Leiknismönnum á ÍR-velli í toppslag 1. deildar karla í kvöld.
Leiknir var með tveggja stiga forskot á ÍR fyrir leikinn en Árni Freyr Guðnason kom ÍR í 1-0 eftir aðeins tveggja mínútna leik og staðan var orðin 2-0 eftir 24 mínútur þegar aukaspyrna Sindra Snæs Magnússonar utan af kanti sigldi alla leið í markið. Brynjar Benediktsson minnkaði muninn fyrir Leikni á lokamínútu leiksins.
Skagamenn eru aðeins að lifna við en þeir unnu annan 1-0 sigur sinn í röð þegar þeir lögðu Njarðvíkinga að velli upp á Akranesi. Það var Arnar Már Guðjónsson sem skoraði sigurmarkið í leiknum. Skagmenn fóru upp um þrjú sæti og upp í það sjöunda með þessum sigri.
Guðmundur Óli Steingrímsson tryggði KA-mönnum 3-2 sigur á Fjölni eftir að Grafarvogspiltar höfðu jafnað leikinn tvisvar sinnum. Andri Fannar Stefánsson og David Disztl komu KA yfir í tvígang en Kristinn Freyr Sigurðsson og Gunnar Valur Gunnarsson jöfnuðu fyrir Fjölni. Leiknismenn halda áfram öðru sæti þar sem að Fjölnir tapaði.
Upplýsingar um markaskorara í leikjum kvöldsins eru fengnar af netmiðlinumk fótbolta. net.