Magnús Erlendsson markvörður Framara var valinn besti leikmaður þriðja og síðasta hluta N1-deildar karla en valið fyrir umferð 15 til 21 var tilkynnt í hádeginu. Gunnar Magnússon, þjálfari HK, var valinn besti þjálfarinn í þessum síðustu sjö umferðum deildarkeppninnar.
Magnús Erlendsson átti margar frábæra leiki í marki Fram í síðustu sjö umferðum mótsins en Fram vann fimm af sjö leikjum sínum í þriðja þriðjungnum og bjargaði sér frá falli.
Gunnar Magnússon stýrði HK-liðinu inn í úrslitakeppnina á lokasprettinum ekki síst þökk sé tveimur glæsilegum sigrum á deildarmeisturum Hauka og á Akureyringum fyrir norðan.
Haukamaðurinn Sigurbergur Sveinsson var eini leikmaðurinn sem komst í öll þrjú úrvalslið vetrarins en Oddur Gretarsson úr Akureyri, Arnór Þór Gunnarsson úr Val, Bjarni Fritzson úr FH og Atli Ævar Ingólfsson úr HK vpru allir í liðinu í annað skiptið í vetur.
Úrvalsliðið fyrir umferð 15 til 21 er þannig skipað:
Markvörður: Magnús Erlendsson, Fram
Vinstra horn: Oddur Gretarsson, Akureyri
Vinstri skytta: Sigurbergur Sveinsson, Haukum.
Miðjumaður: Fannar Þór Friðgeirsson, Val
Hægri skytta: Arnór Þór Gunnarsson, Val
Hægra horn: Bjarni Fritzson, FH
Línumaður: Atli Ævar Ingólfsson, HK
Önnur verðlaun sem veitt voru í dag:
Besti leikmaður: Magnús Erlendsson, Fram
Besti þjálfari: Gunnar Magnússon, HK
Bestu dómrarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson.
Besta umgjörð: Akureyri