Afturelding og Grótta mætast í Mosfellsbæ í kvöld í umspili liðanna um sæti í N1-deild karla á næstu leiktíð.
Afturelding gerði sér lítið fyrir og vann fyrsta leik liðanna á Seltjarnarnesi og getur með sigri í kvöld tryggt sig inn í N1-deildina og um leið sent Gróttu niður.
Stuðningsmenn Aftureldingar ætla að hita upp á Kaffi Kidda Rót frá klukkan 17.30 og verður forsala á staðnum.
Seltirningar ætla sér að fjölmenna í Mosfellsbæinn og verður boðið upp á rútuferðir frá Seltjarnarnesi. Rúturnar leggja af stað klukkan 18.20.
Leikurinn sjálfur hefst síðan klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu á SportTV fyrir þá sem ekki komast á völlinn.