Samkvæmt heimildum Vísis verður Atli Hilmarsson næsti þjálfari handknattleiksliðs Akureyrar. Hann mun taka við liðinu af Rúnari Sigtryggssyni.
Stjarnan tilkynnti í hádeginu að Atli væri hættur að þjálfa kvennalið félagsins.
Samkvæmt heimildum Vísis er Atli í samningaviðræðum við Akureyringa og ef vel gengur gæti verið gengið frá málinu síðar í dag.
Atli sagði við Vísi áðan að hann vildi ekki útiloka þann möguleika að fara aftur norður, þar hefði honum liðið vel á sínum tíma. Hann sagðist ekki vera hættur í þjálfun.
„Ég vildi klára mín mál í Garðabænum og svo fer ég að hugsa um framhaldið," sagði Atli sem þjálfaði KA á árum áður með afar góðum árangri.
Hannes Karlsson, formaður handknattleiksdeildar Akureyrar, vildi lítið tjá sig um málið en sagði að tíðinda væri væntanlega að vænta í dag eða á morgun.