Það verður nóg um að vera í íslenska fótboltanum í dag þegar allir fjórir leikir átta liða úrslita Lengjubikarsins fara fram. Tveir af leikjunum fjórum fara fram utanhúss.
Fram tekur á móti Keflavík á Framvellinum klukkan 14.00 en sigurvegari leiksins mætir síðan sigurvegaranum úr leik Grindavíkur og Breiðabliks sem fer fram í Reykjaneshöllinni klukkan 19.00 í kvöld.
KR tekur á móti FH á gervigrasvellinum sínum klukkan 15.00 en þarna mætast tvö efstu liðin í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili. Sigurvegari leiksins mætir síðan sigurvegaranum úr leik Þórs og Vals sem fer fram í Boganum á Akureyri klukkan 17.15.
Undanúrslitin fara síðan fram á sunnudaginn og/eða mánudaginn kemur en KSÍ mun ekki gefa það út fyrr en ljóst er hvaða lið muni spila þessa leiki.
