Um nýja stjórnarskrá Þorvaldur Gylfason skrifar 2. september 2010 06:00 Stjórnarskrá Íslands, sem samþykkt var með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum 17. júní 1944, er í öllum meginatriðum samhljóða stjórnarskrá Danmerkur. Það eru því ekki endilega annmarkar á stjórnarskránni, sem knýja á um, að þjóðin setji sér nú nýja stjórnarskrá, enda hefur Danmörku vegnað býsna vel. Danir gerðu að vísu nokkrar breytingar á stjórnarskrá sinni 1953 einkum vegna hugsanlegrar inngöngu í Evrópusambandið síðar, en Íslendingar hafa ekki gert samsvarandi breytingar, að frátöldum nýjum mannréttindakafla. Þessi munur skiptir þó ekki miklu máli. Hrunið 2008 stafaði ekki af stjórnarskránni, en hún hefði þurft að girða fyrir ofríki framkvæmdarvaldsins. Stjórnmálastéttin hefur sýnt stjórnarskránni tómlæti og litla virðingu. Stjórnarskrárnefndir skipaðar fulltrúum allra þingflokka hafa setið að störfum um langt árabil án þess að skila nokkrum umtalsverðum árangri. Þó tók steininn úr, þegar stjórnmálamenn færðu útvegsmönnum fyrst ókeypis aðgang að sameignarauðlindinni í hafinu umhverfis Ísland með upptöku kvótakerfisins og tóku síðan, þegar allt var um garð gengið, að tala um nauðsyn þess að færa sameign þjóðarinnar á auðlindum inn í stjórnarskrána. Tímasetningin segir sitt. MannréttindabrotMannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna birti 2007 bindandi álit þess efnis, að fiskveiðistjórnarlögin brjóti gegn mannréttindum samkvæmt alþjóðasáttmálum, sem Ísland hefur fullgilt, og þá einnig gegn samhljóða ákvæðum í stjórnarskránni, svo sem Hæstiréttur hafði áður úrskurðað. Stjórnvöld sýna því þó engan áhuga enn að nema mannréttindabrotaþáttinn burt úr löggjöfinni. Fyrsta meirihlutastjórn vinstri flokkanna frá upphafi skipar sér í sveit með gömlu helmingaskiptaflokkunum, enda má telja víst, að flokkarnir hafa allir og tengdir aðilar tekið við fúlgum fjár frá útvegsfyrirtækjum líkt og frá bönkum og öðrum útrásarfyrirtækjum, svo sem Ríkisendurskoðun lýsti í skýrslu sinni um málið í árslok 2009.Ríkisstjórnin hefur sent Mannréttindanefnd SÞ langt nef með því að gera að sínu svari fráleitt svarbréf fyrri ríkisstjórnar til nefndarinnar. Ríkisstjórnin virðist nú í þokkabót búast til að falla frá afdráttarlausu ákvæði í eigin málsefnasamningi um fyrningu aflaheimilda. Þess verður nú að krefjast af fullum þunga, að fjárstuðningur útvegsfyrirtækja við stjórnmálaflokkana aftur í tímann verði dreginn fram í dagsljósið. Það liggur fyrir, að flokkarnir gengu fyrir fjárveitingum frá bönkunum og skyldum fyrirtækjum, svo sem Ríkisendurskoðun hefur upplýst og ég lýsti hér í blaðinu 14. janúar síðast liðinn. Við eigum enn eftir að fá sams konar greinargerð um fjárhagstengsl útvegsfyrirtækja og stjórnmálaflokka. Það þolir ekki lengri bið. Hreint borðÞörfin fyrir nýja stjórnarskrá helgast af nauðsyn þess að byrja upp á nýtt, frá grunni, með hreint borð. Stjórnmálastéttin kallaði hrunið yfir landið ásamt meðreiðarsveinum sínum í bönkum og útrásarfyrirtækjum eins og rannsóknarnefnd Alþingis lýsir glöggt í skýrslu sinni. Undan þeirri staðreynd verður ekki vikizt. Þjóðin á nú þann kost vænstan að byrja upp á nýtt með því að setja sér nýja stjórnarskrá og nota þá tækifærið til ýmissa gagngerra breytinga og til að senda umheiminum skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði. Aðrar þjóðir hafa sett sér nýjar stjórnarskrár við mikilvæg vatnaskil í sögu sinni. Þjóðverjar settu sér nýja stjórnarskrá eftir heimsstyrjöldina síðari. Suður-Afríkumenn settu sér nýja stjórnarskrá við valdatöku svarta meiri hlutans eftir hrun aðskilnaðarstjórnarinnar 1994. Þessar tvær stjórnarskrár geta reynzt góðar fyrirmyndir handa Íslendingum.Mannréttindakaflar beggja skjala eru prýðilegir og í takti við tímann. Gagnger breyting á stjórnarskránni nú býður upp á gagnger umskipti í stjórnskipaninni. Tækifærið til þess þarf nú að nýta með því að búa vel um valdmörk og mótvægi framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds og kannski einnig eftirlitsvalds að taívanskri fyrirmynd líkt og Reynir Axelsson dósent lýsti á málþingi um stjórnarskrármál í Skálholti 28. ágúst síðast liðinn. Ýmsar aðrar breytingar þyrfti einnig að gera. Þingmönnum þarf að fækka úr 63 í til dæmis 49, 35 eða jafnvel 21. Forseti Íslands þarf að hafa heimild til að vísa til þjóðaratkvæðis bæði lagafrumvörpum, sem þingið samþykkir líkt og fjölmiðlafrumvarpið 2004 og IceSave-frumvarpið 2009, og frumvörpum, sem þingið hafnar, en þó ekki frumvörpum um skatta og skuldir. Með því móti væri girt frekar fyrir getu Alþingis til að ganga gegn vilja fólksins í landinu. Ræða þarf í þaula gamlar og gildar hugmyndir um að gera landsstjórnina óháða stjórnmálaflokkunum og löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið óháðara hvort öðru með því að auka völd forseta Íslands og fela honum jafnvel að tilnefna ríkisstjórn líkt og Gylfi Þ. Gíslason og Ólafur Jóhannesson lýstu eftir í Helgafelli 1946. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun
Stjórnarskrá Íslands, sem samþykkt var með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum 17. júní 1944, er í öllum meginatriðum samhljóða stjórnarskrá Danmerkur. Það eru því ekki endilega annmarkar á stjórnarskránni, sem knýja á um, að þjóðin setji sér nú nýja stjórnarskrá, enda hefur Danmörku vegnað býsna vel. Danir gerðu að vísu nokkrar breytingar á stjórnarskrá sinni 1953 einkum vegna hugsanlegrar inngöngu í Evrópusambandið síðar, en Íslendingar hafa ekki gert samsvarandi breytingar, að frátöldum nýjum mannréttindakafla. Þessi munur skiptir þó ekki miklu máli. Hrunið 2008 stafaði ekki af stjórnarskránni, en hún hefði þurft að girða fyrir ofríki framkvæmdarvaldsins. Stjórnmálastéttin hefur sýnt stjórnarskránni tómlæti og litla virðingu. Stjórnarskrárnefndir skipaðar fulltrúum allra þingflokka hafa setið að störfum um langt árabil án þess að skila nokkrum umtalsverðum árangri. Þó tók steininn úr, þegar stjórnmálamenn færðu útvegsmönnum fyrst ókeypis aðgang að sameignarauðlindinni í hafinu umhverfis Ísland með upptöku kvótakerfisins og tóku síðan, þegar allt var um garð gengið, að tala um nauðsyn þess að færa sameign þjóðarinnar á auðlindum inn í stjórnarskrána. Tímasetningin segir sitt. MannréttindabrotMannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna birti 2007 bindandi álit þess efnis, að fiskveiðistjórnarlögin brjóti gegn mannréttindum samkvæmt alþjóðasáttmálum, sem Ísland hefur fullgilt, og þá einnig gegn samhljóða ákvæðum í stjórnarskránni, svo sem Hæstiréttur hafði áður úrskurðað. Stjórnvöld sýna því þó engan áhuga enn að nema mannréttindabrotaþáttinn burt úr löggjöfinni. Fyrsta meirihlutastjórn vinstri flokkanna frá upphafi skipar sér í sveit með gömlu helmingaskiptaflokkunum, enda má telja víst, að flokkarnir hafa allir og tengdir aðilar tekið við fúlgum fjár frá útvegsfyrirtækjum líkt og frá bönkum og öðrum útrásarfyrirtækjum, svo sem Ríkisendurskoðun lýsti í skýrslu sinni um málið í árslok 2009.Ríkisstjórnin hefur sent Mannréttindanefnd SÞ langt nef með því að gera að sínu svari fráleitt svarbréf fyrri ríkisstjórnar til nefndarinnar. Ríkisstjórnin virðist nú í þokkabót búast til að falla frá afdráttarlausu ákvæði í eigin málsefnasamningi um fyrningu aflaheimilda. Þess verður nú að krefjast af fullum þunga, að fjárstuðningur útvegsfyrirtækja við stjórnmálaflokkana aftur í tímann verði dreginn fram í dagsljósið. Það liggur fyrir, að flokkarnir gengu fyrir fjárveitingum frá bönkunum og skyldum fyrirtækjum, svo sem Ríkisendurskoðun hefur upplýst og ég lýsti hér í blaðinu 14. janúar síðast liðinn. Við eigum enn eftir að fá sams konar greinargerð um fjárhagstengsl útvegsfyrirtækja og stjórnmálaflokka. Það þolir ekki lengri bið. Hreint borðÞörfin fyrir nýja stjórnarskrá helgast af nauðsyn þess að byrja upp á nýtt, frá grunni, með hreint borð. Stjórnmálastéttin kallaði hrunið yfir landið ásamt meðreiðarsveinum sínum í bönkum og útrásarfyrirtækjum eins og rannsóknarnefnd Alþingis lýsir glöggt í skýrslu sinni. Undan þeirri staðreynd verður ekki vikizt. Þjóðin á nú þann kost vænstan að byrja upp á nýtt með því að setja sér nýja stjórnarskrá og nota þá tækifærið til ýmissa gagngerra breytinga og til að senda umheiminum skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði. Aðrar þjóðir hafa sett sér nýjar stjórnarskrár við mikilvæg vatnaskil í sögu sinni. Þjóðverjar settu sér nýja stjórnarskrá eftir heimsstyrjöldina síðari. Suður-Afríkumenn settu sér nýja stjórnarskrá við valdatöku svarta meiri hlutans eftir hrun aðskilnaðarstjórnarinnar 1994. Þessar tvær stjórnarskrár geta reynzt góðar fyrirmyndir handa Íslendingum.Mannréttindakaflar beggja skjala eru prýðilegir og í takti við tímann. Gagnger breyting á stjórnarskránni nú býður upp á gagnger umskipti í stjórnskipaninni. Tækifærið til þess þarf nú að nýta með því að búa vel um valdmörk og mótvægi framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds og kannski einnig eftirlitsvalds að taívanskri fyrirmynd líkt og Reynir Axelsson dósent lýsti á málþingi um stjórnarskrármál í Skálholti 28. ágúst síðast liðinn. Ýmsar aðrar breytingar þyrfti einnig að gera. Þingmönnum þarf að fækka úr 63 í til dæmis 49, 35 eða jafnvel 21. Forseti Íslands þarf að hafa heimild til að vísa til þjóðaratkvæðis bæði lagafrumvörpum, sem þingið samþykkir líkt og fjölmiðlafrumvarpið 2004 og IceSave-frumvarpið 2009, og frumvörpum, sem þingið hafnar, en þó ekki frumvörpum um skatta og skuldir. Með því móti væri girt frekar fyrir getu Alþingis til að ganga gegn vilja fólksins í landinu. Ræða þarf í þaula gamlar og gildar hugmyndir um að gera landsstjórnina óháða stjórnmálaflokkunum og löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið óháðara hvort öðru með því að auka völd forseta Íslands og fela honum jafnvel að tilnefna ríkisstjórn líkt og Gylfi Þ. Gíslason og Ólafur Jóhannesson lýstu eftir í Helgafelli 1946.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun