Rúnar Sigtryggsson þjálfari Akureyrar var brosmildur eftir burstið gegn Gróttu. Eftir slæmt tap gegn FH í síðustu umferð sneri Akureyri taflinu við og hleypti Gróttu aldrei inn í leikinn. Lokatölur 33-19.
„Sem betur fer fyrir okkur þegar það er svona stutt á milli leikja er þetta bara spurning um hvaða karakter menn hafa að geyma."
„Þrátt fyrir að vera komnir með stórt forskot spiluðum við handbolta áfram og við kláruðum þetta vel. Við höfum talað um það áður en við höfum komist í góða forystu og við glutrum því stundum niður á þremur mínútum. Við höfum verið að vinna í þessu og strákarnir gerðu þetta vel í dag."
„Það var sama hvað Grótta reyndi, þeir prófuðu að breyta um vörn en við gáfum okkur bara tíma og leystum verkefnið," sagði Rúnar sem lagði upp með að spila hratt.
„Við sýndum úr hverju við erum gerðir. Við stóðum í vörn eflaust um 80 prósent leiksins og samt var alltaf 100 prósent einbeiting á báðum endum vallarins. Það voru allir einbeittir. Menn voru að finna sig vel."
„Þetta er vonandi á réttri leið. Fyrst og fremst var þetta mikilvægt af því leikurinn á móti FH var eins og mjög slæmur draumur. Þegar það kemur svona pása í mótið og liðið spilar svona eftir það spyr maður sig hvað er í gangi. En sem betur fer var þetta bara slys, fyrst og fremst hugarfarslegt slys, og við fórum á botninn en nú vinnum við okkur þaðan," sagði Rúnar.
Handbolti