Breiðablik vann 2-0 sigur á KR í Lengjubikar karla í kvöld en leikurinn fór fram á gervigrasvelli KR-inga í Frostaskjólinu. Blikar tóku þar með toppsætið í riðlinum af KR-liðinu en Vesturbæingar höfðu unnið fyrstu fimm leiki sína í Lengjubikarnum og ekki tapað leik á árinu 2010.
Jökull Elísabetarson og Alfreð Finnbogason skoruðu mörk Blika í leiknum í sitthvorum hálfleiknum, Jökull með skoti úr teignum um miðjan fyrri hálfleik en Alfreð með skoti úr teignum í blálokin.
„Það er ósköp lítið um leikinn að segja annað en það að KR-ingarnir voru afar slappir og mjög ólíkir því sem þeir voru í fyrri leikjum ársins. KR-ingar höfðu skorað 45 mörk í 11 leikjum en þeir fengu sárafá marktækifæri gegn Blikum," sagði í umfjöllum um leikinn á heimasíðu KR í kvöld.

