„Við vorum að elta þær nánast allan leikinn og vorum undir mest allan leikinn. Þetta jafnaðist undir lokin og síðustu tíu mínúturnar vorum við komnar með þetta svolítið í okkar hendur en við köstuðum þessu alveg frá okkur,” sagði Karen Knútsdóttir, leikmaður Fram, eftir tap gegn Val í fyrstu viðureign liðanna í úrslitaeinvígi N1-deild kvenna í handbolta.
Karen Knútsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Fram í leiknum en hún var ekki ánægð með sóknarleikinn hjá sínu liði.
„Sóknarleikurinn okkar var ekki góður í dag. Við náðum ekki að skora nein auðveld mörk og þær spiluðu góða vörn. Berglind var líka erfið í markinu og varði vel fyrir þær. Íris Björk var líka virkilega góð í markinu hjá okkur og hefði munurinn getað verið miklu meiri. Við þurfum að nýta okkur það betur þegar að hún á svona góðan leik,” bætti Karen við.
Liðin mætast að nýju á heimavelli Fram n.k. þriðjudag og Karen segir að nú sé kominn tími til að sýna hvað í þeim býr.
„Nú þurfum við bara að pæla aðeins í okkur sjálfum og bæta nokkra hluti, það mun gerast á þriðjudaginn. Næsti leikur leggst vel í mig og þetta verður eflaust virkilega spennandi líkt og leikurinn í dag. Það er auðvitað alltaf svekkjandi að tapa en ég er bara mjög spennt. Það er kominn tími til að sýna hvað í okkur býr,” sagði Karen að lokum.