Það eru liðin tæp ellefu ár síðan að íslenska karlalandsliðið í fótbolta náði síðast í stig í marsmánuði í undankeppni EM eða HM. Liðið leikur sinn sjöunda mótsleik í mars á Kýpur í dag og reynir þar að ná í sín fyrstu stig í undankeppni EM 2012.
Guðjón Þórðarson var fyrsti íslenski landsliðsþjálfarinn til þess að stýra landsliðinu í marsmánuði í undankeppni EM eða HM og hann er líka sá eini sem hefur náð í stig í mars. Íslenska landsliðið mætti þá Andorra og Úkraínu með fjögurra daga millibili.
Ísland vann 2-0 sigur á Andorra 27. mars 1999 þar sem bæði mörkin komu í seinni hálfleiknum eftir að Guðjón Þórðarson hélt eftirminnilega skammarræðu í hálfleik. Miðverðirnir Eyjólfur Sverrisson og Steinar Adolfsson skoruðu mörkin eftir hornspyrnur Arnars Gunnlaugssonar.
Fjórum dögum seinna náði liðið síðan 1-1 jafntefli við Úkraínu í Kiev eftir að hafa lent undir. Lárus Orri Sigurðson skoraði jöfnunarmarkið sjö mínútum eftir að Úkraína komst yfir.
Síðan þá hefur íslenska landsliðið spilaði fjóra leiki í röð í marsmánuði án þess að fá stig. Liðið tapaði síðasta 0-1 fyirr Spáni í grenjandi rigningu á Mallorca fyrir fjórum árum og tveimur árum fyrr hafði liðið steinlegið 0-4 í Króatíu.
Leikir Íslands í mars í undankeppni HM og EM:27. mars 1999 Andorra-Ísland 0-2
31. mars 1999 Úkraína-Ísland 1-1
24. mars 2001 Búlgaría-Ísland 2-1
29. mars 2003 Skotland-Ísland 2-1
26. mars 2005 Króatía-Ísland 4-0
28. mars 2007 Spánn-Ísland 1-0
26. mars 2011 Kýpur-Ísland ?-?
