Handbolti

Kristín: Ætlum að taka titilinn aftur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristín Guðmundsdóttir, skytta Vals, hefur marga fjöruna sopið á sínum ferli og hún segir að Valsliðið mæti vel stemmt til leiks í úrslitaeinvígið við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta.

"Þetta leggst vel í okkur og við mætum 150 prósent klárar. Við erum hrikalega spenntar og ætlum okkur að taka titilinn aftur," sagði Kristín en svíður tapið í bikarnum enn í liðinu?

"Það situr ekkert í okkur. Við tókum deildina þar sem við sýndum okkar rétta andlit. Við spiluðum betur nú í ár gegn þeim en í fyrra. Liðin þekkjast mjög vel og ekkert á að koma á óvart í rauninni. Vonandi náum við samt að spila jafn vel gegn þeim núna og í deildinni," sagði Kristín en hvað mun gera gæfumuninn í þessu einvígi?

"Dagsformið skiptir alltaf miklu. Svo er það hugarfarið og liðsheildin. Hún getur skilað miklu rétt eins og í fyrra."

Kristín segir að Stefán þjálfari sé ekki sá eini í Valsliðinu sem hafi hitt spákonu.

"Við stelpurnar í liðinu gerðum það líka. Hún sagði okkur að einvígið færi í fjóra leiki en vildi ekki segja hvernig það myndi enda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×