Pála Marie Einarsdóttir, leikmaður Vals, segir Valsstelpur ætla með bikarinn á Hlíðarenda, þar sem hann á heima. Hún segir stemmninguna í liðinu góða.
„Hún er rosagóð. Það hlakka allir til þess að spila. Það er alltaf jafngaman að koma hingað og spila bikarúrslitaleik."
Pála Marie hefur bæði verið í sigurliði og tapliði í bikarúrslitaleik og á því misjafnar minningar frá Laugardalsvelli.
„Ég held í þessar góðu og reyni að gleyma þeim sem þarf að gleyma. En það er bikar í góðu og auðvitað ætlum við heim með hann."
Pála lítur ekki á leikinn sem möguleika á að hefna fyrir úrslitaleikinn árið 2008 þegar KR gjörsigraði Val 4-0.
„Nei, bæði lið eru mjög breytt þannig að það er ekki alveg hægt að bera þetta saman."
Valskonur gáfu út fyrir tímabilið að liðið stefndi á að vinna tvöfalt. Nú virðist Íslandsmeistaratitillinn genginn þeim úr greipum og bikarinn hugsanlega leið til þess að bjarga sumrinu.
„Já, hinn er nánast kominn í Garðabæinn en þessi er ennþá í Reykjavík og við ætlum að skella honum á Hlíðarenda, þar sem hann á að vera."
Flestir reikna með sigri Valskvenna á laugardag og jafnvel stórsigri.
„Nei, ég myndi ekki reikna með honum. Við ætlum að sjálfsögðu að vinna þennan leik en KR er með gott lið og það er ekkert gefið í bikarúrslitum."
Pála er með einfalda uppskrift að sigri í leiknum.
„Við ætlum að verjast vel og skora fleiri mörk en þær. Það virkar oftast til þess að vinna leiki."
Pála Marie: Ekki reikna með stórsigri
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar