Veiði

Laus veiðileyfi á næstunni

Karl Lúðvíksson skrifar
Dammurinn í Blöndu er magnaður veiðistaður
Dammurinn í Blöndu er magnaður veiðistaður Mynd af www.lax-a.is
Þeir sem eru ekki búnir að veiða nóg í sumar og eru að skoða í kringum sig eftir veiðileyfum ættu ekki að örvænta strax því það eru dagar lausir á stangli hér og þar og víða má ennþá gera frábæra veiði fyrir sanngjarnt verð á leyfum.

Við tókum saman nokkur veiðileyfi sem við fundum á netinu hjá stærstu veiðileyfasölum landsins og það er vonandi að einhverjir geti nýtt sér þetta ef menn eru ekki búnir að veiða nóg.

Lax-á/Agn.is

Blanda svæði I og II. Það er nokkuð laust af stöngum og verðið er að lækka í 25.800 og minna fyrir daginn. Áin er á yfirfalli en það er ennþá fullt af fiski á báðum svæðum. Það þarf bara að hafa aðeins meira fyrir þeim en venjulega. Þeir sem hafa stokkið á einn dag þarna hafa verið að taka 4-8 laxa á stöngina og mest af þessu er í yfirvigt svo að hér er gott tækifæri til að takast á við smá áskorun.

Ytri-Rangá. Það eru lausir dagar inná milli og veiðin núna er um 60-80 laxar á dag, takk fyri það! Öll svæði eru inni, allt frá Straumey og upp að Guttlfossbreiðu svo að það skiptir engu máli hvar þú lendir í drættinum um svæði, það er fiskur á öllum stöðum. Nettilboðin hafa verið 35.000 á hálfann dag sem verður að teljast frábært verð miðað við hvað veiðist mikið í ánni þessa dagana.



Óli Kr. með stórlax úr SoginuMynd af www.svfr.is
SVFR

Sogið, Ásgarður og Alviðra. Það má eiginlega furðu sæta að ennþá sé hægt að fá daga í Soginu miðað við hversu mikið veiddist í fyrra. Veiðin er búin að vera mjög fín en samt er besti tíminn framundan að margra mati. Það má finna lausa daga á báðum svæðum og verðið er 22.900 fyrir daginn eða minna. Það fylgir hús með á báðum stöðum og það eyðileggur heldur ekki fyrir að bleikjan er farin að veiðast vel á nýjann leik.

Ásgarðurinn hefur verið annálaður hauststaður og þegar líður á tímabilið fara stóru hængarnir á stjá.

það voru líka örfáar stangir lausar í Hafralónsá í september hjá SVFR.  Það er alveg prime time í hausthængana.  Svæðið er gífurlega fallegt og þegar þú færð töku á fluguna eru yfirgnæfandi líkur á stórlaxi í hvert sinn.   

75 sm hrygna úr JökluMynd: Sigurður Freyr Árnason
Veiðiþjónustann Strengir

Strengir eru til dæmis með Jöklusvæðið á sínum höndum. Veiðin er tvöfalt betri en í fyrra og það virðist ekkert nema tveggja ára lax vera á svæðinu. Sem er auðvitað ekkert nema gott. Jöklann fer ekki á yfirfall fyrr en í lok september, ef það gerist þá yfirhöfuð. Það er lax á öllum svæðum og verðið á leyfunum er 36.800 í september. Fínt að taka þetta með gæsinni í september.

Tungulækur. Það er eitthvað laust í Tungulæknum og hér ertu að reyna við stóra sjóbirtinga. Stærðin á sjóbirtingnum í Tungulæknum getur verið alveg rosaleg og menn missa boltafiska hérna á hverju ári. Muna að taka með sterkari tauma.



Korpan er önnur veiðiperlan á Reykjavíkursvæðinu
Hreggnasi

Það er uppselt á flestum af þeirra veiðisvæðum en menn ættu að hafa samband við þá til að athuga með leyfi í Gljúfurá í Húnaþingi. Algjör perla! Einhverjir dagar eru líka lausir í Korpunni og þar er slatti af laxi. Ósinn kraumaði fyrir fáum dögum og það virðist sem eitthvað af laxi sé að tregðast við að ganga upp. Ástæðan er líklega sú að þegar menn veiða ánna standa þeir óþarflega mikið yfir Sjávarfossinum sem er neðsti veiðistaður og þá bíður laxinn bara færis með að ganga. Verðið á leyfunum er 19.900 fyrir daginn. Góð kaup og stutt að fara.

Það eru örugglega fleiri veiðimöguleikar í boði en þetta er það sem við tókum saman svona í snarhasti. Góða veiði.






×