Veiði

Á að seinka opnun í gæsaveiðinni?

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd af www.ust.is
Eftir afskaplega kalt vor hafa menn rætt það í alvöru sín á milli að of snemmt sé að hefja gæsaveiðar þetta árið 20. ágúst eins og venjan er.  Ástæðan er sú að víða um land, þá sérstaklega á norður og austurlandi eru ungarnir ennþá litlir, ófleygir og margir ennþá í dún.

Veiðivísir var á ferðinni um norður og austurland og okkur var brugðið við að sjá hversu fáa unga við sáum með gæsunum.  Í fyrra var það ekkert tiltökumál að telja 3-6 unga með gæs en núna sáust 1-2 ungar og það bara með fáum fuglum.  Heilu hóparnir sáust af gæsum sem voru alveg ungalausir.

Á vesturlandi og suðurlandi er staðan betri en þó ekki eins og hún ætti að vera í venjulegu ári.  Það hefur greinilega haft áhrif á varpið hversu kalt vorið var og víða hefur varpið hreinlega misfarist.  Á heiðunum fyrir austann sáust gæsir með unga sem hafa verið að koma úr eggjum í júlí, alveg klárt mál.

Opnunin á gæs er 20. ágúst eins og áður segir og sem betur fer fyrir skyttur landsins þá eru Heiðagæsa- og Grágæsastofnarnir í góðum málum svo að eitt ár í lélegu varpi hefur ekki mikið að segja um afkomu eða stofnstærð. 






×