Einar Þorvarðarson, framkvæmdarstjóri HSÍ, segir það slæmt að Stjarnan hafi ákveðið að draga kvennalið sitt í handknattleik úr keppni í N1-deild kvenna í vetur. Þetta var tilkynnt formlega í gær.
„Við hörmum þetta. Þetta er mjög slæmt og kom okkur nokkuð á óvart,“ sagði Einar í samtali við Vísi í dag.
Fram kemur í yfirlýsingu frá stjórn handknattleiksdeildar Stjörnunnar að rekstrarumhverfi sé mjög erfitt. Það er ein ástæðan fyrir ákvörðun deildarinnar um að draga liðið til baka úr keppni.
„Ég held að tekjöflun í kringum kvennaíþróttir séu mun erfiðari en karlamegin. Ég held að það sé alveg ljóst,“ segir Einar.
„Þetta er auðvitað sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að þetta lið er afar sigursælt og hefur verið flaggskip Stjörnunnar undanfarin ár.“
Stjörnuna skorti einnig leikmenn fyrir veturinn og telur Einar að brotthvarf markvarðarins Florentina Stanciu til ÍBV hafi haft mikil áhrif. Stjarnan var í raun ekki með markvörð í sínu liði. „Það lítur út fyrir að það hafi sett þetta allt upp í loft.“
Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að önnur félög hafi ekki virt starfsreglur og rætt við leikmenn Stjörnunnar þrátt fyrir að þeir voru samningsbundir félaginu.
„Við höfum ekki fengið erindi frá Stjörnunni um þetta mál og hefur þetta aðeins komið fram í yfirlýsingunni þeirra. Því er erfitt fyrir HSÍ að bregðast við þessu.“
Spurður hvort að fleiri félög gætu fylgt fordæmi Stjörnunnar og dregið lið sín úr keppni segist Einar ekki hafa fengið spurnir af því. „Ég vona innilega ekki,“ sagði ekki.
