Fyrri keppnisdegi á KPMG-mótinu er nú lokið og óhætt að segja að keppnislið höfuðborgarinnar standi vel að vígi fyrir keppni í tvímenningi á morgun.
Í morgun var keppt í fjórleik og svo í fjórmenningi nú síðdegis. Lið höfuðborgarinnar fékk samtals níu og hálft stig úr viðureignunum en landsbyggðin einungis tvö og hálft.
Landsbyggðin hefur borið sigur úr býtum í þessari keppni undanfarin tvö ár en fyrirmynd hennar er Ryder-keppnin þar sem keppnislið Bandaríkjanna og Evrópu keppast annað hvert ár.
Tvímenningur fer fram á morgun og fær þá lið landsbyggðarinnar tækifæri til að rétta sinn hlut. Tólf af 24 stigum alls eru enn í pottinum en lið höfuðborgarinnar þarf aðeins þrjú stig til viðbótar til að fá meirihluta stiganna og tryggja sér þar með sigur í keppninni.
Þá er einnig keppt í eldri flokki en þar hefur höfuðborgin einnig forystu, með sjö og hálft stig gegn þremur og hálfu stigi landsbyggðarinnar.
Úrslitin í öllum viðureigunum má finna hér.

