Birgir Leifur Hafþórsson fór á kostum á þriðja hring opna austurríska golfmótsins í morgun. Birgir Leifur lék hringinn á 68 höggum eða fjórum undir pari vallarins. Hann er því á tveimur höggum undir pari samanlagt eftir þrjá hringi.
Birgir Leifur fékk sex fugla, tíu pör og tvo skolla á hringnum í dag. Hann var sérstaklega heitur á seinni níu holunum þar sem hann fékk fimm fugla og fjögur pör.
Birgi Leif gekk illa í gær þegar hann lék hringinn á fimm höggum yfir pari. Hann rétt slapp í gegnum niðurskurðinn á tveimur höggum yfir pari samanlagt. Það kemur í ljós síðar í dag í hvaða sæti frábær frammistaða Birgis Leifs í dag skilar honum.
