Michael Jordan, eigandi NBA liðsins Charlotte Bobcats, er án efa ekki sáttur við verkbannið í deildinni og deilu eigenda við leikmannasamtökin. Jordan gaf gær frá sér hlutverk aðstoðarfyrirliða bandaríska úrvalsliðsins í golfi sem keppir í Forsetabikarnum gegn alþjóðlega úrvalsliðinu. John Cook mun taka við hlutverki Jordan en Fred Couples er fyrirliði bandaríska liðsins.
„Þar sem að launadeilan er óleyst get ég ekki yfirgefið Bandaríkin á þessum tíma,“ sagði Jordan í gær.
Cook, sem hefur sigrað 11 sinnum á PGA mótaröðinni verður því í hlutverki Jordans þegar keppnin fer fram í Melbourne í Ástralíu 17.-20. nóvember.
Jordan var aðstoðarfyrirliði bandaríska liðsins árið 2009 þegar keppnin fór fram á Harding Park. Þar stóð bandaríska liðið uppi sem sigurvegari, 19 ½ - 14 ½. Alþjóðlega úrvalsliðið er eingöngu skipað leikmönnum sem eru ekki frá Bandaríkjunum eða Evrópu.
