Veiði

Viðtal - Ási og Gunni Helga með nýja veiðimynd og bók

Karl Lúðvíksson skrifar
Gunni og Ási með stórlax í Aðaldalnum
Gunni og Ási með stórlax í Aðaldalnum
Þeir bræður Gunnar og Ásmundur Helgasynir eyddu sumrinu í að taka upp veiðimynd um íslenska stórlaxinn. Myndin, sem ber heitið Leitin að stórlaxinum, verður þó ekki ein á ferð því þeir bræður eru einnig að gera bók með sama nafni – og mun myndin fylgja bókinni á dvd disk. Veiðivísir sat fyrir þeim á dögunum og dældi á þá spurningum.

Hvar voruð þið að mynda í sumar?

Gunni: Eins og nafnið ber með sér þá vorum við að leita að stórlaxinum. Við fórum því í Breiðdalsá, á Jöklusvæðið, Hofsá og Laxá í Aðaldal, á Nessvæðið. Markmiðið var að fara yfir 90 sentímetrana, en báðir höfðum við fengið stærst 90 sm langa laxa. Næðist það markmið var næsta markmið að fara yfir meterinn og komast þar með í 20 punda klúbbinn eftirsótta.

Hvernig gengur tökurnar?

Ási: Tökurnar gengu bara asskoti vel þakka þér fyrir. Við vorum með tvo afar öfluga menn með okkur í þessar framleiðslu, þá Jón Víði Hauksson og Jón Þór Víglundsson. Þeir sáu um alla myndatöku, bæði ofan vatns og neðan. Og við náðum fullt af laxi í mynd.

Markmiðið var að leita að 20 punda laxinum eins og þið segið, tókst það?

Gunni: Þeir sem vilja láta þetta koma á óvart ættu ekki að lesa lengra – markmið sumarsins náðust nefnilega með eftirminnilegum hætti.

Ási: Hjá að minnsta kosti öðrum okkar.

Hvaða atvik stóð upp úr tökunum í sumar?

Ási: Það var þegar Gunni datt á lax í Jöklu þegar hann ætlaði að sporðtaka laxinn. Laxinn brást ókvæða við og losaði sig af önglinum enda ekki hrifinn af tilburðum Gunna. En það var bót í máli að þar sem Gunni svamlaði í Jöklu náði hann að lengdarmæla laxinn (hvernig sem hann fór að því) þannig að hann var færður til bókar.

Gunni: Það er líka eftirminnilegt hvernig við steingleymdum að halda í háfinn þegar metfiskurinn kom upp úr honum. Hann sést í myndinni fljóta rólega út úr mynd og þar með niður Laxá í Aðaldal. Hér með er lýst eftir háfnum.

Ási; jú, og hvað Gunni var iðinn við að detta í árnar.

Gerðist eitthvað óvænt sem þið voruð ekki búnir að gera ráð fyrir?

Gunni: Það er aldrei á vísan að róa í laxveiðinni. Markmiðið var að fá stórlaxa og svo helst að minnsta kosti einn yfir 20 pundin og það markmið var í sjálfu sér mjög metnaðarfullt ef ekki hreinlega fífldjarft. Því má segja að það hafi komið okkur á óvart hvað þetta gekk rosalega vel. Annað sem gekk ekki eins vel og var svolítið óvænt var hvað Ási er lélegur kvikmyndatökumaður. Það kom fyrir að við þurftum að munda vélarnar sjálfir og þá kom í ljós að Ási er hreinlega ekki með þetta. Samt neyðumst við til að nota ýmislegt af því efni sem hann tók upp. Það er hrista myndefnið og það sem er úr fókus. Svo kom eitt annað á óvart og það var hvað ég datt oft ofaní árnar. Jökla og Hofsá eru bara svo sleipar,

Ási: Já, við fengum fleiri laxa en við áttum von á og við veiddum nákvæmlega jafn marga laxa þegar allt var tekið saman. En það óvæntasta var þegar við Jón Þór voru á bílnum hans Gunna á leið til Reykjavíkur frá Egilsstöðum. Í göngunum um Almannaskarð, rétt austan við Höfn, datt framhjólið undan Patrol jeppanum. Það er ekki laust við að hjartað hafi tekið kipp hjá okkur. En rærnar fundust allar, dekkið líka og því var ekki annað að gera en að skella því undir og halda áfram í bæinn. Þannig að það kom kannski á óvart hvað Gunni hugsar lítið um viðhald á bílnum sínum.

Nú hafið þið verið duglegir í framleiðslu á veiðiefni t.d. í myndunum Svona tekur laxinn og í þáttunum Með öngulinn í rassinum. Var einhver munur að vinna þessa mynd í sumar og það efni sem þið hafið gert áður?

Ási: Síðast þegar við unnum saman, í þáttunum Með öngulinn í rassinum, vorum við í keppni við hvorn annan. Sem reyndi all verulega á bræðrakærleikinn á köflum. Nú snerum við bökum saman og unnum sameiginlega að því að ná settu marki. Svo erum við í fyrsta sinn með bók um fluguveiði þannig að það er nýtt hjá okkur. Í myndinni skoðum við líka Jöklusvæðið nokkuð vel og fáum innsýn í hvernig ný laxveiðiá verður til. Svo finnst okkur þessi mynd betri en það sem við höfum gert áður að mörgu leyti. Skárra væri það nú, eitthvað lærir maður af reynslunni.

Gunni: Og jú, það eru stærri fiskar í þessari mynd en áður hefur sést í mynd af þessu tagi. Við fullyrðum það. Svei mér þá ef við setjum ekki einhverskonar heimsmet með þessari mynd.

Ási: Rólegur

Gunni: Nei, nei, ég ætla að athuga með heimsmetabók Guinnes.

Hvernig veiðifélagi er Ási og hvernig veiðifélagi er Gunni?

Gunni: Ási er frábær veiðifélagi þegar hann gerir það sem honum er sagt. Það er ekki oft, því miður og því reynir stundum á bræðrakærleikann. Það sem er best við hann er að við erum oftast nær í fullkomnum samhljómi við fluguval og veiðiplanið sjálft. Við reynum að veiða sem einn maður enda er skiptingin á aflanum oftast nær hnífjöfn. Svo er bara heppnin sem ræður því hvor fær stærri fisk.

Ási: Gunni er ekki góður veiðifélagi. Hann vill ALLTAF byrja og þá helst með risastórum Sunray. Algerlega óþolandi.

Hvort er skemmtilegra að veiða tíu 5 punda laxa eða einn 20 punda?

Ási: Ég veit það ekki, spurðu Gunna.

Gunni: Það er enginn vafi hvort er skemmtilegra" segir Gunni leyndardómsfullur á svip.

Nú hafið þið verið ötullir í málum stangveiðimanna t.d. í SVFR, er eitthvað sem þið mynduð vilja sjá breytast á landinu hvað varðar stangveiði á Íslandi?

Ási: Nú er ansi stórt spurt. Við erum mjög svo fylgjandi því fyrirkomulagi að veiða og sleppa, sérstaklega þegar um tveggja ára lax er að ræða. Svo finnst okkur nauðsynlegt að koma fleiri netum upp – það er í raun ótrúlegt hvað skilningur á mikilvægi þessarar greinar fyrir byggðalögin er lítill.

Gunni: Án þess að vera eitthvað pólitískur þá er ég harður fylgismaður veiða og sleppa. Ég vil endilega að synir mínir eigi þess kost að veiða stórlaxa í framtíðinni.

Hvenær kemur svo bókin og myndin í búðir?

Gunni: Við reiknum með að það verði í síðasta lagi 20. nóvember. Bókin er í prentun og myndin í framleiðslu þannig að þetta er allt að smella.

Ási: Í bókinni velja 10 veiðmenn 10 flugur til að fara með á stórlaxaveiðar. Fluguúrvalið kemur á óvart að mörgu leyti, þ.e. hversu fjölbreyttur listinn er. Þarna eru menn eins og Hilmar Hansson, Óskar Páll, Klaus Frimor, Gísli Ásgeirs, Halli Eiríks, Völundur í Nesi og Þröstur Elliða. Þá opnar Þórður Pétursson, Doddi, boxið sitt og sýnir flugurnar sínar, líklega í fyrsta sinn.

Gunni; Annað heimsmet!

Ási: Þá fáum við Gunni að lista okkar flugur líka.

Að lokum, ef þið mættuð bara veiða eina á það sem eftir er, hvaða á er það og af hverju?

Gunni: Laxá í Aðaldal…ef ég má skreppa við og við í Breiðdalinn. Laxá vegna stærðarinnar og andrúmsloftsins og auðvitað stóru laxanna og Breiðdalurinn vegna andrúmsloftsins og fjölbreytninnar" segir Gunni.

"Ég verð náttúrulega að vera sammála" segir Ási að lokum.






×