Tiger Woods klúðraði forystu sinni á opna ástralska mótinu á þriðja hringnum í nótt og er nú sex höggum á eftir Ástralanum John Senden sem er efstur fyrir lokadaginn. Tiger er í áttunda sæti.
Tiger byrjaði daginn á því að fá skolla á þremur fyrstu holunum en hann var með eins högg forskot eftir tvo fyrstu dagana þar sem hann hafði leikið á níu höggum undir pari og aðeins fengið samtals 2 skolla á 36 holum.
„Ég byrjaði bara skelfilega," sagði Tiger. Hann lék á endanum á 75 höggum eða þremur höggum yfir pari. Tiger fékk líka skolla á tveimur holum í röð á seinni níu og náði bara tveimur fuglum á hringnum. Hann hafði náð 11 fuglum á fyrstu tveimur dögunum.
John Senden var hinsvegar í miklum ham í gær en hann lék þriðja hringinn á 63 höggum eða níu höggum undir pari. Senden er nú á tólf höggum undir pari og með eins högg forskot á landa sinn Jason Day.

