Tiger Woods er þremur höggum á eftir fremsta manni eftir fyrsta keppnisdag opna ástralska meistaramótsins í golfi. Hann lék á fjórum höggum undir pari, 68 höggum, í gær.
Heimamaðurinn Jarrod Lyle er efstur á sjö höggum undir pari en landi hans, Adam Scott, lék á þremur undir pari í gær. Hann fékk reyndar albatrossa á 8. holu, sem er 557 jarda löng og par fimm.
Það var þó líklega John Daly sem vakti einna mesta athyglina í gær en hann gekk af velli í miðri keppni og hætti leik. Það gerðist á tíundu holu, eftir að hann hafði slegið rangan bolta upp úr sandglompu og fékk fyrir það tveggja högga víti.
Daly tók sig til og sló 6-7 bolta í nærliggjandi vatn, tilkynnti svo að hann væri hættur og gekk af velli.
Forráðamenn mótsins í Ástralíu voru brjálaðir og báðu Daly vinsamlegast að halda sér frá mótinu í framtíðinni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Daly lendir í óvenjulegu atviki í Ástralíu en á sama móti fyrir tveimur árum síðan hrifsaði hann til sín farsíma eins áhorfenda og kastaði honum í tré. Sagði hann að áhorfandinn hafi farið í taugarnar á sér.

