Handbolti

Kristín: Máttum alls ekki við tapa í kvöld.

Stefán Árni Pálsson skrifar
Valsvörnin var sterk í kvöld.
Valsvörnin var sterk í kvöld. Mynd/Stefán
„Þessi sigur var svakalega mikilvægur fyrir okkur," sagði Kristín Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, eftir sigurinn í kvöld. Valur vann toppslaginn gegn Fram ,23-16, í Safamýrinni en leikurinn var hluti af níundu umferð N1-deild kvenna.

„Við máttum alls ekki við því að tapa hér í kvöld. Framarar hefði með sigri farið langt með að vinna deildarmeistaratitilinn. Í fyrri hálfleik voru ákveðin atriði sem við náðum ekki að koma í veg fyrir varnarlega, en það lagaðist þegar leið á leikinn".

„Við komum vel stefndar út í seinni hálfleikinn og þá fór vörnin að ganga upp hjá okkur. Þegar það kemur fylgir markvarslan á eftir sem varð raunin í kvöld. Þetta er saga okkar í vetur en við komum alltaf til baka í seinni hálfleik".

Valur, Fram og Stjarnan eru öll með 16 stig í efstu þremur sætum deildarinnar eftir leikinn í kvöld en Valur setur stefnuna á deildarmeistaratitillinn.

„Það er alveg á hreinu að við stefnum á toppinn en þetta mun verða barátta alveg fram að síðasta leik," sagði Kristín.

„Við styrktum okkur aðeins um jólin og fengum tvo útispilari til liðs við okkur sem var frábært upp á breidd liðsins að gera. Við erum að ná að dreifa álaginu mikið og það fá allir sína hvíld. Þetta er það sem við höfðum framyfir Framara í kvöld en þær voru að keyra mikið á sömu stelpunum," sagði Kristín eftir sigurinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×