Seinni sýning Ferðalags fönixins verður á Stóra sviði Borgarleikhússins á Listahátíð í Reykjavík í kvöld. Í sýningunni fást Eivör Pálsdóttir söngkona, Reijo Kela nútímadansari og María Ellingsen leikkona hver á sinn hátt við hina táknrænu goðsögu um Fönixinn.
Á vef Listahátíðar segir að sagan um Fönixinn gefi áhorfandanum færi á að spegla eigin lífsreynslu, ferðast með fuglinum inn í eldinn þar sem hann brennur upp, umbreytist og tekur flugið á ný.
Listamennirnir sem standa að verkinu eru þeir sömu og gerðu Úlfhamssögu, sem hlaut tvenn Grímuverðlaun 2007. Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd, Filippía Elísdóttir búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósameistari skapar myndheim sögunnar. Verkið var frumsýnt í gær.
Önnur upprisa Fönixins í kvöld
