Ráðherrann og fyrirspyrjandinn Ólafur Þ. Stephensen skrifar 2. júlí 2011 07:00 Fyrirspurnir alþingismanna til ráðherra eru mikilvægur þáttur í aðhaldi þingsins með framkvæmdarvaldinu. Þessi réttur þingmanna er þó stundum misnotaður; stundum liggja svörin þegar fyrir og stundum spyrja þeir spurninga sem leiða af sér mikla vinnu fyrir ráðuneytin án þess að við blasi að upplýsingarnar skipti miklu máli. Núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þekkir fyrirspyrjandahlutverkið vel. Þegar hún var í stjórnarandstöðu lagði hún einu sinni fram 107 fyrirspurnir á 17 mánuðum, frá október 2003 fram til febrúar 2005. Þá var reiknað út að þetta væru hátt í fjórar fyrirspurnir á hverri viku sem þingið sat og að færu sex vinnustundir að meðaltali í að svara hverri þyrfti stjórnarráðið að hafa tvo deildarsérfræðinga í því verki einu að undirbúa svör til Jóhönnu. Nú hefur Ríkisendurskoðun slegið á fingur forsætisráðherra fyrir slæleg vinnubrögð við að svara fyrirspurn frá stjórnarandstöðuþingmanni. Fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um verktakagreiðslur stjórnarráðsins til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands var ekki tilefnislaus, því að auðvitað á þingið og almenningur rétt á að vita hvernig fé skattgreiðenda er varið, og ekki átti að vera erfitt að svara henni; upplýsingarnar eru í bókhaldi ráðuneytanna. Ríkisendurskoðun telur að samt hafi forsætisráðuneytið klúðrað svarinu, án þess þó að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt. Stofnunin leggur til ýmsar breytingar á verklagi svo veita megi Alþingi sem nákvæmastar upplýsingar. Tölurnar sem nú liggja fyrir benda ekki til að í greiðslunum felist neitt hneyksli sem hefði þurft að fela. Viðbrögð forsætisráðherra við aðfinnslum þingmannsins við hið upphaflega svar eru hins vegar umhugsunarverð. Í bréfi sem Jóhanna skrifaði Alþingi og Ríkisendurskoðun í janúar var hún sármóðguð í garð Guðlaugs, sem hafði komið auga á misræmi í tölunum. Jóhanna sagði aðfinnslurnar „alvarlegri en gengur og gerist því þingmaðurinn sakar forsætisráðherra landsins beinlínis um að leyna þingið vísvitandi upplýsingum“. Slíkt væri „í besta falli kjánalegt“. Þingtíðindin muna allt sem sagt er á Alþingi, þar á meðal orð Jóhönnu Sigurðardóttur sem var öskuill í ræðu 20. nóvember 1996 yfir svari við fyrirspurn sinni um húsnæðismál frá Páli Péturssyni, þáverandi félagsmálaráðherra. Jóhanna kallaði svörin „ámælisverð og ófyrirleitin“. Þar kæmu fram „villandi og beinlínis rangar upplýsingar þannig að við jaðrar að um beina fölsun á staðreyndum sé að ræða“ – og svo alvarlegir hlutir að jafna mætti við „hreina valdníðslu“. Jóhanna taldi fulla ástæðu til að Ríkisendurskoðun legði mat á svar ráðherrans. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrann Jóhanna lendir í vandræðalegri mótsögn við stjórnarandstöðuþingmanninn Jóhönnu. Hefði hún ekki átt að spara stóru orðin og leggja bara áherzlu á að stjórnarráðið vandaði sig betur við að svara fyrirspurnum þingmanna? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun
Fyrirspurnir alþingismanna til ráðherra eru mikilvægur þáttur í aðhaldi þingsins með framkvæmdarvaldinu. Þessi réttur þingmanna er þó stundum misnotaður; stundum liggja svörin þegar fyrir og stundum spyrja þeir spurninga sem leiða af sér mikla vinnu fyrir ráðuneytin án þess að við blasi að upplýsingarnar skipti miklu máli. Núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þekkir fyrirspyrjandahlutverkið vel. Þegar hún var í stjórnarandstöðu lagði hún einu sinni fram 107 fyrirspurnir á 17 mánuðum, frá október 2003 fram til febrúar 2005. Þá var reiknað út að þetta væru hátt í fjórar fyrirspurnir á hverri viku sem þingið sat og að færu sex vinnustundir að meðaltali í að svara hverri þyrfti stjórnarráðið að hafa tvo deildarsérfræðinga í því verki einu að undirbúa svör til Jóhönnu. Nú hefur Ríkisendurskoðun slegið á fingur forsætisráðherra fyrir slæleg vinnubrögð við að svara fyrirspurn frá stjórnarandstöðuþingmanni. Fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um verktakagreiðslur stjórnarráðsins til starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands var ekki tilefnislaus, því að auðvitað á þingið og almenningur rétt á að vita hvernig fé skattgreiðenda er varið, og ekki átti að vera erfitt að svara henni; upplýsingarnar eru í bókhaldi ráðuneytanna. Ríkisendurskoðun telur að samt hafi forsætisráðuneytið klúðrað svarinu, án þess þó að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt. Stofnunin leggur til ýmsar breytingar á verklagi svo veita megi Alþingi sem nákvæmastar upplýsingar. Tölurnar sem nú liggja fyrir benda ekki til að í greiðslunum felist neitt hneyksli sem hefði þurft að fela. Viðbrögð forsætisráðherra við aðfinnslum þingmannsins við hið upphaflega svar eru hins vegar umhugsunarverð. Í bréfi sem Jóhanna skrifaði Alþingi og Ríkisendurskoðun í janúar var hún sármóðguð í garð Guðlaugs, sem hafði komið auga á misræmi í tölunum. Jóhanna sagði aðfinnslurnar „alvarlegri en gengur og gerist því þingmaðurinn sakar forsætisráðherra landsins beinlínis um að leyna þingið vísvitandi upplýsingum“. Slíkt væri „í besta falli kjánalegt“. Þingtíðindin muna allt sem sagt er á Alþingi, þar á meðal orð Jóhönnu Sigurðardóttur sem var öskuill í ræðu 20. nóvember 1996 yfir svari við fyrirspurn sinni um húsnæðismál frá Páli Péturssyni, þáverandi félagsmálaráðherra. Jóhanna kallaði svörin „ámælisverð og ófyrirleitin“. Þar kæmu fram „villandi og beinlínis rangar upplýsingar þannig að við jaðrar að um beina fölsun á staðreyndum sé að ræða“ – og svo alvarlegir hlutir að jafna mætti við „hreina valdníðslu“. Jóhanna taldi fulla ástæðu til að Ríkisendurskoðun legði mat á svar ráðherrans. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrann Jóhanna lendir í vandræðalegri mótsögn við stjórnarandstöðuþingmanninn Jóhönnu. Hefði hún ekki átt að spara stóru orðin og leggja bara áherzlu á að stjórnarráðið vandaði sig betur við að svara fyrirspurnum þingmanna?