Handbolti

Leikmennirnir vildu halda áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir. Mynd/Vilhelm
Stjarnan verður með í N1-deild kvenna í vetur þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Þetta var staðfest í gærmorgun eftir að skipt hafði verið um stjórn í handknattleiksdeild félagsins.

Baldur Ó. Svavarsson var formaður stjórnarinnar sem sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis fyrr í vikunni að vegna erfiðleika í rekstrinum yrði að draga kvennalið Stjörnunnar úr keppni í N1-deild kvenna. Í fyrradag var brugðist við þessari yfirlýsingu, bæði hjá aðalstjórn Stjörnunnar og bæjaryfirvöldum, með áðurnefndum afleiðingum.

„Þetta vakti menn af værum blundi hér í bænum," sagði Baldur. „Maður leikur sér þó ekki að því að gera svona lagað. Og þetta var ekki gert í þeim tilgangi að vekja menn til lífsins. En þetta varð engu að síður til þess að stuðningsmenn, aðalstjórn félagsins og stjórnmálamenn tóku við sér."

Sigurður Bjarnason, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, er varaformaður Stjörnunnar og tekur tímabundið við formennsku í stjórn handknattleiksdeildarinnar. Hann er ósammála því að vekja hafi þurft aðalstjórn félagsins og bæjaryfirvöld af „værum blundi". Þvert á móti hafi aðgerðirnar skaðað félagið og því hafi verið gripið til aðgerða.

„Það var alvarlega vegið að starfsemi félagsins og þá sérstaklega yngri flokka þess. Í félaginu eru margar ungar stelpur sem horfa mikið upp til meistaraflokks kvenna. Það hefur verið afreksflokkur í félaginu til fjölda ára. Þessar stelpur langar til að taka þátt í því og þarna sáu þær það starf rifið niður. Það fannst mér alvarlegast við þetta allt saman – það var ekkert verið að spá í því," sagði Sigurður.

Fundað var með leikmönnum í fyrrakvöld og er mikill einhugur sagður ríkja hjá leikmönnum um að halda áfram. „Leikmenn eru í sjokki eftir þessa atburði og það verður verkefni okkar að koma liðinu í stand á ný," sagði Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×