Poppprinsessan Britney Spears fær skelfilega dóma hjá dönskum og sænskum fjölmiðlum eftir tónleika sína þar í vikunni. Það var á mánudaginn sem Spears tróð upp í Herning í Danmörku og sögðu danskir gagnrýnendur hana vera jafn kynþokkafulla á sviði og „strætóstoppistöð í rigningu“.
Blaðamaður Ekstra Bladet segir tónleikagesti ekki hafa fengið neitt fyrir peninginn, en uppselt var á tónleika Spears. „Ég finn til með söngkonunni, sem verður 30 ára í desember. Hún leit út eins og gömul táningsstjarna sem vildi frekar vera heima í íþróttagalla að borða franskar og horfa á lélega bíómynd.“ Tónleikarnir fá tvær stjörnur af sex mögulegum en önnur blöð gefa tónleikunum falleinkunn.
Gagnrýnandi Aftonbladet í Svíþjóð tekur í sama streng eftir tónleika Spears í Malmö og lýsir söngkonunni sem „svefndrukknum uppvakningi“. Í kjölfarið á þessum dómum er víst að Spears verður að taka sig saman í andlitinu fyrir næstu tónleika hennar í Stokkhólmi á sunnudag ef bjarga á orðspori hennar í Skandinavíu.
