Handbolti

Leik lokið: Valur - Stjarnan 24-15 | Valskonur aftur á toppinn

Óskar Ófeigur Jónssoon skrifar
Mynd/Hag
Valskonur náðu aftur toppsætinu í N1 deild kvenna eftir öruggan níu marka sigur á Stjörnunni, 24-15, í Vodafone höllinni í dag. Stjarnan hékk í Valsliðinu í fyrri hálfleik en í þeim seinni áttu Stjörnukonur engan möguleika. Valur er þar með tveggja stiga forskot á Fram en Framliðið á leik inni á móti HK á þriðjudagskvöldið.

Landsliðskonurnar Guðný Jenný Ásmundsdóttir og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir stóðu upp úr í Valsliðinu í dag. Jenný varði 66 prósent skota sem á hana komu og Hrafnhildur skoraði sjö mörk og klikkaði á aðeins einu skoti.

Besti maður vallarins var þó Kristín Ósk Sævarsdóttir, markvörður Stjörnunnar, sem varði frábærlega í markinu og flest skotanna úr algjörum dauðafærum. Þetta hefði farið illa hjá Stjörnunni í dag án hennar.

Valskonur lögðu áherslu á að loka vel á Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur og það gekk vel upp því Hanna náði aðeins að skora eitt mark í leiknum. Það vó þungt ekki síst þar sem liðið lék án Jónu Margrétar Ragnarsdóttur.

Valsliðið var 9-7 yfir í hálfleik en skoraði síðan fjögur fyrstu mörk seinni hálfleiksins og var komið tíu mörkum yfir, 19-9, þegar tíu mínútur voru til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×