Handbolti

Júlíus fer í frí út af bjórdrykkju

Júlíus Sigurjónsson.
Júlíus Sigurjónsson.
Júlíus Sigurjónsson handknattleiksdómari, sem sakaður var um að mæta til leiks angandi af áfengi um síðustu helgi, mun ekki dæma fleiri leiki á þessari leiktíð.

Dómaranefnd tók málið fyrir á fundi í dag og þar var staðfest að dómarinn, Júlíus Sigurjónsson, hafi drukkið bjór á opinberum stað rúmum 14 tímum fyrir leik Gróttu og ÍBV um síðustu helgi. Dómaranefndin tekur þó ekki undir þær ásakanir að Júlíus hafi mætt til leiks angandi af áfengi.

Hér að neðan má sjá yfirlýsingu dómaranefndar HSÍ:

Á fundi dómaranefndar í dag var tekið fyrir mál þar sem Júlíus Sigurjónsson var ásakaður af þjálfara ÍBV um að hafa mætt til leiks angandi af áfengi að dæma leik Gróttu og ÍBV í úrslitakeppni kvenna þann 14. apríl sl. Eftir að hafa skoðað gögn sem snerta málið þá getur dómaranefnd ekki tekið undir þær ásakanir.

Kvöldið fyrir leik drakk umræddur dómari bjór á opinberum stað og liðu meira en 14 klukkustundir frá því síðasti bjór var drukkin þar til leikur hófst.

Þrátt fyrir það að ekki hafi fundist áfengislykt af dómaranum þá er framkoma hans ekki í anda heilbrigðrar íþróttastefnu.

Dómaranefnd hefur því ákveðið í samráði við umræddan dómara að hann taki sér frí til loka keppnistímabilsins.

Fyrir hönd dómaranefndar HSÍ,

Guðjón L. Sigurðsson, formaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×