Veiði

Helgarviðtalið: Hitsaði 12 punda lax með áhorfendur á bakkanum

Ingimundur með fallegan 12 punda lax í Hítará. Þessi féll fyrir gárubragðinu.
Ingimundur með fallegan 12 punda lax í Hítará. Þessi féll fyrir gárubragðinu.
Ingimundur Bergsson er forfallinn veiðimaður. Honum þótti það gaman að veiða að hann ákvað að stofna Veiðikortið þannig að hann þyrfti ekki að hugsa um annað en veiði. Veiðivísir ákvað að forvitnast aðeins um veiðiáhuga Ingimunds.

Hvenær byrjaðir þú að veiða á stöng og hvað varð þess valdandi að þú byrjaðir að veiða? Pabbi byrjaði að taka mig með sér þegar ég var smá polli. Ætli ég hafi ekki verið farinn að fara reglulega með pabba aðallega í Hópið þegar var um 6 eða 7 ára. Ég man að mér þótti mjög spennandi að fylgjast með flotholtinu og það var yfirleitt góð veiði í Hópinu – að minnsta kosti í minningunni.

Hvað var fyrsta veiðivatnið sem þú stundaðir? Eftir að ég fóra að veiða sjálfur fór ég reglulega í Hópið af gömlum vana sem og í Þingvallavatnið þannig að það voru svona fyrstu vötnin sem maður stundaði eitthvað.

Ógleymanlegur dagur með Hallgerði í Hlíðarvatni


Á hvað veiddir þú og á hvað veiðir þú?
Þegar ég var yngri veiddi ég alltaf á maðk en ég byrjaði að veiða á flugu þegar ég var 18 ára (trúi því samt varla að það séu 20 ár síðan og maður er ennþá hálfgerður byrjandi) og hef lítið veitt á maðkinn síðan því það er svo gaman að veiða á flugu. Sérstaklega kannski þegar maður hittir á flugu sem fiskurinn er að taka eftir að hafa prófað nokkrar aðrar sem ekki virkuðu.

Fyrsti flugufiskurinn? Fyrstu flugufiskarnir mínir voru teknir í Hlíðarvatni í Selvogi. Það var ógleymanlegur dagur en ég fékk nokkrar smáar bleikjur á púpu sem heitir Hallgerður ef ég man rétt, en þá flugu fékk ég í kaupbæti með vöðlum sem ég keypti nokkrum dögum áður.

Lax, urriði, bleikja, sjóbirtingur? Allt frábærir fiskar að veiða. Mér finnst jafnvel erfitt að gera upp á milli þeirra enda hefur hver veiði fyrir sig ákveðinn sjarma. Það sem heillar kannski í laxinum er að fiskarnir eru oftast stærri (nema kannski ef miðað er við Þingvallaurriðann) og kannski aðeins meiri spenna. Einnig má segja að það sé fátt sem toppi það að vera í fallegu vatni á bleikjuslóðum og negla nokkrar bleikjur og hlusta á fuglana í rólegheitum.

Laxá í Þing í uppáhaldi


Eftirminnilegasti fiskurinn?
Ég verð að segja að ég hafi veitt eftirminnilegasta fiskinn þegar ég var að hitsa Breiðuna í Hítará með flugustöng fyrir línu fimm, en þá sprengdi einn 12 punda yfirborðið og ég landaði glæsilegum fiski eftir dágóðan slag. Þó svo þetta sé ekki stærsti fiskurinn þá er þetta klárlega eftirminnilegasti fiskurinn og mig minnir að þetta hafi verið stærsti flugulaxinn það sumarið úr ánni. Ekki spillti fyrir að fiskurinn tók fimm mínútum fyrir hlé þannig að flestir veiðimenn voru mættir á bakkann, en veiðistaðurinn er við veiðihúsið. Það má því segja að klappliðið hafi verið manni til halds og trausts.

Straumvatn eða stöðuvötn? Þetta er í raun sitthvor veiðin og ég geri varla upp á milli straumvatns eða stöðuvatns. Það er ef til vill meira krefjandi að veiða í vötnum og meiri spenna fólginn í því að finna agnið sem til dæmis bleikjan er að taka hverju sinni. Í vatnaveiðinni er maður algjörlega sinn eigin herra og þarf ekki að hugsa um tímaúthlutanir á veiðistöðum og þessháttar.

Uppáhalds áin og vatnið? Þessi er erfið. Held að ég verði að segja að uppáhaldsáin sé Laxá í Þing í heild sinni, Nesið í laxi og Mývatnsveitin í urriðanum. Uppáhaldsvötnin geta verið misjöfn eftir hvaða tíma árs er miðað við en ég held að mitt uppáhald í vatnaveiðinni sé að veiða bleikju í Þingvallavatni á fallegum degi.

Sunray Shadow er spennugjafi


Uppáhalds veiðistaðurinn?
Það er sennilega fátt á jarðríki sem jafnast á við að veiða Presthyl í Laxá í Aðaldal - og þá helst þegar farið er að skyggja aðeins.

Hver er þín skoðun á veiða og sleppa? Þar sem verið er að byggja upp fiskistofna er ég mjög hlynntur því að veiða og sleppa og má þá benda til dæmis á sjóbirtingsstofninn í ánum fyrir austan sem nauðsynlegt er að vernda eins og hægt er til að hann nái sér á strik.

Uppáhalds flugurnar? Ég er mjög rólegur í því að festa mig í einhverjum uppáhalds flugum. Ég nota þó mest Pheasant tail, Watson Fancy, Peacock og ýmsar vinylrip púpur. Í straumflugum fyrir silung er Black Ghost náttúrulega hátt skrifuð. Í laxinum veð ég bara í boxið og vel það sem mér finnst passa hverju sinni - reyndar er Sunray Shadow alltaf spennugjafi og því í svolitlu uppáhaldi.

Ertu græjukarl og hvernig veiðibúnað notar þú? Ég veiði aðallega á flugustöng #5, 9,6´ en nota líka #6 og #7 þegar við á. Ég er nú ekki mikill græjukall þegar kemur að hjólum.

Áttu þér fasta punkta í veiðinni, vorveiði, haustveiði, sérstakar ár eða vötn?
Það hefur snarminnkað hjá mér tíminn sem ég hef til að sinna veiðinni, en jú, það eru svona nokkrir staðir sem ég reyni að sleppa ekki á hverju sumri, til dæmis Þingvellir, Hraunsfjörður, Laxá í Aðaldal og Mývatnssveitin svo nokkrir staðir séu nefndir. Hef líka reynt að komast í Elliðaárnar á hverju ári en fer ekki þangað í ár.

Verð á veiðileyfum mun ekki lækka


Hvar á að veiða í sumar?
Ætla að vera duglegur að fara í vötnin og reyna að prófa nokkur ný vatnasvæði. Einnig mun ég fara í Aðaldalinn og Kjósina.

Hvaða álit hefurðu á þróun stangveiði á Íslandi; verð á veiðileyfum, menning á veiðistað og svo framvegis? Ef við horfum til næstu 10 ára þá er ég nokkuð viss um að erlendum veiðimönnum eigi eftir fjölga mikið hér á landi. Eflaust miklu meira en menn halda. Með auknum straumi erlendra veiðimanna verða færri leyfi til skiptanna fyrir íslenska veiðimenn sem verður til þess að verð á leyfum mun að minnsta kosti ekki lækka.

Eftir hverju ertu fyrst og fremst að sækjast þegar þú ferð að veiða? Það er í raun misjafnt. Þegar ég fer í Þingvallavatn er ég að leitast við að hafa það notalegt og þá er bara plús ef bleikjan er á svæðinu. Á Þingvöllum gleymir maður algjörlega stund og stað. Í Laxá í Aðaldal er það náttúrulega umhverfið og vonin um að setja í þann risastóra. Einnig er félagsskapurinn mjög stór þáttur í veiðinni og sjálfsagt einn stærsti þátturinn almennt í veiðiferðum.

mynd/Ingimundur Bergsson





×