Veiði

Þrjú þúsund rúmmetra malarnám úr Svarfaðardalsá

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá Svarfaðardal. Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur heimilað 3 þúsund rúmmetra malarnám úr Svaraðardalsá.
Frá Svarfaðardal. Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur heimilað 3 þúsund rúmmetra malarnám úr Svaraðardalsá.
Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar heimilar að teknir verði þrjú þúsund rúmmetrar af möl úr Svarfaðardalsá. Formaður Stangaveiðifélags Akureyrar segist treysta á að veiðiskilyrðum verði ekki spillt.

Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar og síðar bæjarstjórnin hafa samþykkt ósk Atla Friðbjörnssonar um leyfi til að taka 2.500 til 3.000 rúmmetra af möl úr áreyrum og Svarfaðardalsá í Eyjafirði. Malartakan verður vestan Búrfellsár. Þetta er gert með samþykki landeigenda Búrfells og Veiðifélags Svarfaðardalsár.

Stangaveiðifélag Akureyrar (Svak) er umboðsaðili fyrir Svarfaðardalsá og sér sem slíkur um sölu veiðileyfa í þessa sjóbleikjuperlu fyrir veiðifélag landeigandanna. Guðrún Una Jónsdóttir, formaður Svak, segir félag sitt þannig ekkert hafa með malartökumálið að gera.

"Við treystum á að ákvörðun landeigenda, veiðifélagsins og umhverfisráðs taki mið af að spilla veiðiskilyrðum árinnar sem minnst," segir formaður Svak.


Tengdar fréttir






×