Veiði

Mýveisla hjá silungnum í Elliðavatni

Trausti Hafliðason skrifar
Líftími stóru toppflugunnar er aðeins nokkrir dagar.
Líftími stóru toppflugunnar er aðeins nokkrir dagar. Mynd/Trausti Hafliðason
Veiðimenn við Elliðavatn hafa tekið eftir því undanfarið að mikið er af rykmýi við vatnið eins og sjá má á myndunum sem fylgja þessari frétt. Flugurnar eru vinsælir bitar fyrir fiska og fugla. Lirfurnar og púpurnar eru einnig mikilvæg fæða fyrir þessar tegundir.

Jón S. Ólafsson, vatnavistfræðingur á Veiðimálastofnun, segir myndirnar, sem teknar voru í síðustu viku, nokkuð lýsandi fyrir klak rykmýs og sýnist honum sem svo að þetta sé stóra toppfluga (Chironomus islandicus), sem er stærsta rykmýstegundin hér á landi. Útbreiðsla hennar er bundin við stöðuvötn eða tjarnir en sjaldgæft er að hún finnist í straumvötnum. Líftími flugnanna er aðeins nokkrir dagar, en á þeim tíma makast þær og verpa oftast aðeins einu sinni.

Veisla í svona mýklaki

Jón segir flugurnar klekjast um það bil tveimur vikum eftir að ís fer af vötnum. Þetta gerist yfirleitt snemma í maí hér fyrir sunnan en ekki fyrr en í byrjun júní fyrir norðan, til dæmis við Mývatn. Hann segir að fiskurinn og andfuglarnir á Elliðavatni lendi sannanlega í veislu í svona mýklaki.

Að sögn Jóns er erfitt að segja til um hvort þetta sé mikið af flugu fyrir Elliðavatn þar sem ekki séu kerfisbundnar vöktunarrannsóknir við Elliðavatn líkt og í Elliðaánum og við Mývatn. Hins vegar sé vert að hafa í huga að Elliðavatn, líkt og Mývatn, sé frjósamt, grunnt lindarvatn. Hann segir að kuldakastið í gær og fyrradag ætti ekki að hafa teljandi áhrif á afkomu mýflugna. Hins vegar geti kuldinn haft áhrif ef hann vari í nokkra daga eða viku. Þá sé ekki spurning um að áhrifin yrðu marktæk á stofn mýflugna.

Kvenflugan verpir tæplega þúsund eggjum

Jón hefur skrifað þó nokkuð um skordýr og þar með talið flugur. Margir veiðimenn þekkja vafalaust skrif hans í bókina Veiðiflugur Íslands en þar skrifaði hann kafla um helstu fæðutegundir vatnafiska á Íslandi. Afar fróðlegur kafli fyrir veiðimenn og ekki síst fluguhnýtara.

Í Sportveiðiblaðinu í fyrra, tölublöðum 1 til 3., skrifaði Jón áhugaverða pistla um mýflugur. Þar kemur meðal annars fram að á Íslandi séu þekktar yfir 80 tegundir rykmýs. Mýið er einkum áberandi í kvöldstillum í hlýviðri en um leið og blása tekur leita flugurnar niður á jörðina þar sem þær hinkra uns vind lægir.

„Hver kvenfluga verpir tæplega þúsund eggjum sem búið er um í slímhjúp," segir Jón um stóru toppfluguna í Sportveiðiblaðinu. „Við að lenda á vatni tútnar slímhjúpur þessi út þannig að hann verðu að ummáli á stærð við krónupening. Hjúpurinn sekkur til botns þar sem lirfurnar klekjast úr eggjum á einum til tveimur dögum."

Lífsferillinn tekur eitt til tvö ár


„Lirfur stóru toppflugunnar grafa sig niður í botnsetið þar sem þær lifa á þörungum og rotnandi lífrænu efni uns þær ná þeirri stærð og þroska að breytast í púpu. Á þeim tíma ganga lirfurnar í gegnum fjögur lirfustig. Lirfur stóru toppflugunnar eru dökkrauðar að lit. Liturinn er tilkominn vegna blóðrauða (haemoglobin) sem gerir lirfunum kleift að lifa við aðstæður þar sem súrefni er af skornum skammti. Fullvaxta ná lirfurnar um 2 cm lengd. Lirfur stóru toppflugunnar myndbreytast í púpur í pípum sínum. Rétt áður en púpurnar losa sig úr pípunum myndast loftbóla undir húðinni sem flýtir þeim sundið upp á vatnsborðið. Í yfirborðinu opnast rifa á púpuhaminn þannig að flugan getur skriðið upp á vatnsyfirborðið og flogið á braut."

Í pistli Jóns í Sportveiðiblaðinu segir að lítið sé vitað um lífsferil stóru toppflugunnar utan Mývatns og Þingvallavatns en þar hefur verið sýnt fram á að lífsferillinn getur tekið eitt til tvö ár.

1.100 tegundir skordýra

Auk þess pistlanna í Sportveiðiblaðinu og kaflans í bókinni í Veiðiflugur Íslands er afar fróðleg grein eftir Jón um skordýr á síðu Veiðimálastofnunar. Þar kemur meðal annars fram að á Íslandi lifa um 1.100 tegundir skordýra.






×