Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fram 24-21 | Valur Íslandsmeistari

Stefán Árni Pálsson á Hlíðarenda skrifar
Valur varð í dag Íslandsmeistari í handknattleik kvenna eftir frábæran sigur á Fram, 24-21, í fimmta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn en leikurinn fór fram í Vodafonehöllinni.

Það var virkilega hart barist í fyrri hálfleiknum og varnarleikur í fyrirrúmi hjá báðum liðum. Fyrsta mark leiksins kom til að mynda ekki fyrir en eftir fimm mínútna leik sem segir alla söguna hversu sterkar varnir liðana voru.

Framarar byrjuðu hálfleikinn betur og náði fljótlega tveggja marka forystu. Valsstelpurnar voru samt sem áður aldrei langt undan og þegar leið á hálfleikinn fór leikur þarna að batna.

Það tók heimastúlkur ekki langan tíma að jafna leikinn og fljótlega náðu þær yfirhöndinni í leiknum. Staðan var 11-8 fyrir Val í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var algjör eign Valsara og í raun áttu Framarar lítinn möguleika. Heimamenn keyrðu upp hraðan og skoruðu heilan helling af mörkum eftir hraðar sóknir. Það sást vel að Framarar voru orðnar bensínlitlar eftir svona langt einvígi og Valur hafði einfaldlega meiri breidd til að tryggja sér titilinn.

Þorgerður Anna Atladóttir, leikmaður Vals, var virkilega öflug í síðari hálfleiknum og skoraði oft á tíðum mörk á mikilvægum augnablikum. Heimastelpur unnu að lokum leikinn 24-21. Valur er því Íslandsmeistari þriðja árið í röð og í öll þrjú skiptin hefur liðið unnið Fram í úrslita einvíginu.

Þorgerður: Þetta verður bara skemmtilegra og skemmtilegra
mynd/daníel
„Þetta er ólýsanleg tilfinning," sagði Þorgerður Anna Atladóttir, leikmaður Vals, eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Maður tárast bara og getur lítið að því gert. Þetta er alltaf jafn ógeðslega gaman. Ég hef áður orðið Íslandsmeistari en þetta er alltaf jafn skemmtilegt."

„Svona eiga þessi einvígi að vera. Það var troðfullt hús og fólk þurfti að leita sér að sætum. Þetta eru bara tvo frábær lið og við vorum örlítið betri í dag."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Þorgerði með því að ýta hér.

Hrafnhildur: Ég verð bara betri með árunum
mynd/daníel
„Ég verð aldrei þreytt á því að lyfta þessum bikar, enda er ég með frekar góða upphandleggsvöðva," sagði Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði Vals, eftir sigurinn í dag.

„Við vorum aðeins stressaðar til að byrja með en unnum okkur hægt og rólega inn í leikinn."

„Ég vissi allan tímann að við myndum taka þennan bikar. Það var þvílík geðveiki í augunum á stelpunum fyrir leik og maður sá strax þá í hvað stefndi."

„Það var víst aðsóknarmet slegið hér í dag og aldrei hafa eins margir verið inn í höllinni. Það er bara algjör forréttindi að spila við svona aðstæður og ótrúleg stemmning."

„Ég er ekkert að fara hætta í boltanum og var að skrifa undir 2 ára samning við Val. Ég verð bara betri eftir því sem ég eldist."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Hrafnhildi með því að ýta hér.

Anna: Vörn og markvarsla vann þetta einvígi
mynd/daníel
„Við erum fáránlega ánægðar og mikil gleði í hópnum," sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, ,leikmaður Vals, eftir sigurinn.

„Við erum að ná árangri núna eftir alla þá vinnu sem við höfum lagt á okkur. Unnum tvöfalt í ár og erum klárlega besta liðið á Íslandi í dag."

„Það var ótrúleg stemmning hér í dag og frábært að fá fullt hús. Þetta er líklega einn skemmtilegasti leikur sem bæði lið hafa spilað."

„Það sem vann þetta einvígi var vörn og markvarsla og við vorum örlítið framar en þær á því sviði, það skilar okkur þessum titli í ár."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Önnu með því að ýta hér .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×