Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari í höggleik kvenna, er í efsta sæti þegar keppni er hálfnuð á fyrsta móti keppnistímabilsins á Eimskipsmótaröðinni í golfi. Ólafía Þórunn, sem keppir fyrir Golfklúbb Reykjavíkur, lék á 76 höggum í dag eða 4 höggum yfir pari. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili lék á 79 höggume ða 7 höggum yfir pari og er hún í öðru sæti. Anna Sólveig Tryggvadóttir úr Keili er þriðja á 81 höggi eða 9 höggum yfir pari.
Skor kylfinga í kvennaflokknum var frekar hátt í dag. Aðstæður voru erfiðar þar sem að mikið rok var á Hólmsvelli í Leiru.
Ólafía Þórunn fékk þrjá fugla (-1) á hringnum í dag en hún fékk 5 skolla (+1) og 1 skramba (+2). Hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í höggleik í fyrsta sinn á ferlinum á Hólmsvelli í Leiru í fyrra. Guðrún Brá fékk 3 fugla á hringnum í dag, 8 skolla og 1 skramba.
Staða efstu kylfinga:
1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR – 76
2. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK – 79
3. Anna Sólveig Snorradóttir, GK – 81
4. Þórdís Geirsdóttir, GK – 82
5. Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO – 83
6. Signý Arnórsdóttir, GK – 83
7. Ragna Björk Ólafsdóttir, GKG – 83
8. Ingunn Gunnarsdóttir, GKG – 85
9. Tinna Jóhannsdóttir, GK – 85
10. Karen Guðnadóttir, GS - 85
