Veiði

Tillaga um seinkun netaveiða í Hvítá og Ölfusá felld

Kristján Hjálmarsson skrifar
Frá Stóru-Laxá, svæði fjögur.
Frá Stóru-Laxá, svæði fjögur. Björgólfur Hávarðsson
Stjórn Veiðifélags Árnesinga hefur í þrígang fellt tillögur þess efnis að neitaveiði í Hvítá og Ölfusá verði seinkað um tvær vikur. Stjórn veiðifélagsins hefur síðustu ár verið harðlega gagnrýnd fyrir netaveiðarnar en hún samþykkti einróma á síðasta aðalfundi að heimila þær. Samkvæmt heimildum Veiðivísis eru þó ekki allir á eitt sáttir við veiðarnar innan félagsins.

Árni Baldursson hjá Lax-á, sem er einn leigutaka á svæðinu, skrifaði harðorðan pistil í dag þar sem hann segir að enn eitt árið hafi stjórn Veiðifélags Árnesinga ákveðið að gefa Veiðimálastofnun langt nef "með því að láta sem vind um eyru þjóta ákvörðun/ákall frá árinu 2010 um að öllum stórlaxi á Íslandi skuli hlíft, þar sem talið er að stofninn sé í mikilli hættu."

Vill seinka netaveiðitímanum


Árni segir að stangveiðimenn og veiðifélög um allt land hafi þjappað sig saman og farið að fyrirmælum Veiðimálastofnunar og sleppt öllum laxi sem er tveggja ára, eða yfir 70 sentimetrar.

Árni segir að netaveiðimenn eigi að sjálfsögðu að fara að ákvörðun Veiðimálstofnunar eins og aðrir og ekki að leggja net sín fyrr en mest af stórlaxinum er farinn hjá. "Einfalt er það; seinkið netaveiðitímanum um 2 vikur, og þá hafa netaveiðimenn lagt eithvað á vogarskálarnar til friðunar og uppbyggingar á stórlaxinum á svæðinu," segir Árni meðal annars í pistli sínum sem birtist á Lax-á.is.



Formaðurinn vill ekki tjá sig

Jörundur Gauksson, formaður Veiðfélags Árnesinga, vildi ekki tjá sig um málið þegar Veiðivísir hafði samband við hann í dag. Hann sagði þó að eining væri innan stjórnarinnar um að haga málum með þessum hætti og slíkt hefði verið síðustu ár.



Ekki allir á eitt sáttir


Samkvæmt heimildum Veiðivísis eru þó ekki allir í Veiðifélagi Árnesinga á eitt sáttir við þetta. Síðastliðin þrjú ár hafa verið lagðar fram tillögur á aðalfundi um að seinka netaveiðinni í Hvítá og Ölfusá um tvær vikur en þær hafa alltaf verið felldar. Þeir sem staðið hafa að tillögunum eru meðal annars Tungufljótsdeildin og Stóru-Laxárdeildin, sem heyra undir Veiðifélag Árnesinga.

Veiðifélag Árnesinga samanstendur af eigendum og ábúendum jarða og eigenda landareigna sem veiðirétt hafa í fimmtán ám; Ölfusá, Soginu, Ásgarðslæk, Höskuldslæk, Hvíta, Fossá, Dalá, Brúará, Hagaós, Hólaá, Tungufljóti neðan Faxa, Fullsælum, Andalæk, Litlu-Laxá og Stóru-Laxá.






×