Veiði

Laxveiðin hafin í Noregi: Bein útsending!

Svavar Hávarðsson skrifar
Atle Jarl Holsen rær á Ytreeide svæðinu í ánni Stryn í Nordfjord
Atle Jarl Holsen rær á Ytreeide svæðinu í ánni Stryn í Nordfjord Björgólfur Hávarðsson
Laxveiðitímabilið í Noregi hófst klukkan tólf á miðnætti. Frændur vorir eru jafn spenntir og við Íslendingar yfir upphafi laxveiðitímabilsins og reyndar svo mjög að NRK, norska ríkissjónvarpið, heldur úti 24 klukkustunda beinni útsendingu frá stórlaxaánni Gaulu í Syðri-Þrándalögum.

Hægt er fylgjast með útsendingunni hér, en um klukkan 8:30 fylgdist Veiðivísir með því þegar 17 punda lax var dreginn á þurrt. Veiðimaðurinn var roskinn herramaður sem beitti fyrir sig pungsökkvu og garðflugu.

Það er annars helst að frétta að menn eru búnir að landa nokkrum vel vænum nýrunnum stórlöxum síðan útsending hófst og því gaman að fylgjast með. Stærsti laxinn sem kominn er á land í dag var um 30 pund.

Svo má líka spyrja ykkur dellukarla og kerlingar hvort þessi veiðiskapur er eitthvað sem ykkur er að skapi. Í Noregi er nefnilega upphaf tímabilsins með nokkruð öðrum hætti en hérlendis, eins og sjá má. Samkvæmt tíðindamanni Veiðivísis í Noregi kostar sólarhringurinn (veitt 24 tíma) í Gaulu um 12 þúsund íslenskar. Veiði er hægt að stunda í ánni fram til 14. júní á þessu verði, en svo má spyrja hvort þetta sé lítið eða mikið fyrir það svæði í ánni sem hver veiðimaður hefur fyrir sig.

Þá er aðeins hálf sagan sögð. Gaula er ein besta fluguveiðiá í Evrópu og er stórkostleg perla að sögn þeirra sem þangað hafa farið til veiða, meðal annars býður Lax-á upp á ferðir til veiða í Gaulu, eins og lesa má um hér. Á síðunni má finna fjölda fallegra mynda frá Gaulu.

Áin Gula er stærsta laxveiðiáin í Mið-Noregi og fellur til sjávar í Þrándheimsfirði milli Þrándheims og Melhus. Hún er um 145 kílómetrar að lengd en vatnasvið hennar er 3.600 ferkílómetrar. 95 kílómetrar eru laxgengir.

Veiði í Gaulu er ekki mæld í stykkjatali eins og tíðkast hér á landi, heldur tonnum. Á árunum 2005 til 2008 veiddust 37,5 til 47 tonn af laxi í ánni. Stærsti stangveiddi lax úr Gaulu var 50 pund en kóngurinn veiddist þegar dregið var fyrir til hrognatöku eitthvert haustið; 62 pund takk!! Sjá frekari upplýsingar hér.

Gaula hefur í áratugi verið ein af fimm gjöfulustu laxveiðiám Noregs en Alta í Norður-Noregi er sennilega frægust norskra áa.

Áin á sitt upphaf í Gaulhaavola fjöllunum við landamæri Noregs og Svíþjóðar. Neðri svæðin bukta sig rólega í gegnum fagrar sveitir en efri hlutinn er líflegur með meiri straumi og fínum hyljum. Aðeins tveir fossar eru á laxgengu svæði, Gaularfossinn og Eggafossinn sem er erfiður fyrir laxinn þó bara sé hann fimm metra hár.

Önnur stórá sameinast Gaulu á leiðinni til sjávar, Sokna áin, en aðrar þekktar ár, þó minni séu, eru Rugla, Hesja, Holda, Forda og Bua.

Áin er rómuð fyrir mikla náttúrfegurð og fjölbreytni náttúrunnar frá fjalli til fjöru er mikil. Það er líflegt dýralíf við Gaulu en meðfram ánni getur þú gengið fram á hrein, elg og rádýr, björn og ref og fuglalíf er rómað. Áin er varanlega vernduð gegn virkjanagerð og öðrum inngripum mannsins.

Þrír þjóðgarðar eru við ána og einnig er ósinn fólkvangur með miklu fuglalífi.






×