Veiði

Sex á land í Skjálfandafljóti; Tregða í Norðurá

Trausti Hafliðason skrifar
Veitt í Skjálfandafljóti.
Veitt í Skjálfandafljóti. Mynd / Lax-á
Í hádeginu voru sex laxar komnir á land í Skjálfandafljóti en veiði hófst þar í gærmorgun. Fjórir komu á land í gær og tveir nú fyrir hádegi. Stefán Sigurðsson, hjá Lax-á, sagðist, í samtali við Veiðivísi, vera mjög ánægður með opnuna.

"Þessir fiskar hafa allir verið ríflega 80 sentímetrar," segir Stefán. "Það er líka töluvert af fiski í ánni. Í morgun sá ég sex nokkuð stóra við austurbakka neðri. Þeir lágu við litla stíflu sem er milli Fosselskvíslar og Skipapolls."

Á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur í gær var sagt frá því að síðasta hollið í Norðurá hefði aðeins landað um 20 löxum.

"Verður það að segjast að laxinn var með ólíkindum tregur," segir á vef SVFR. "Þó verður að hafa í huga að miklar hitasveiflur hafa einkennt undanfarna daga og snjóaði í fjöll í fyrrinótt."

Alls hafa um rúmlega 120 laxar komið á land í Norðurá það sem af er veiðitímabilinu.

"Svo virðist sem að smálaxagöngur séu að verða sterkari sem eðlilegt verður að teljast á þessum árstíma. Þó er mikið af stórlaxi í Norðurá og eru þeir einkar vel haldnir," segir á vef SVFR.






×