Veiði

Pakkað af bleikju í Rugludalshyl

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Neðan bæjarins Blöndudalshóla eru margir álitlegir veiðistaðir.
Neðan bæjarins Blöndudalshóla eru margir álitlegir veiðistaðir. Mynd/Garðar


Sjö manna holl sem var við veiðar á tveimur efstu svæðum Blöndu um síðustu helgi kom þaðan laxlaust. Bleikjan í Rugludalshyl bjargaði andliti hópsins.

Veiðar hófust á þremur efstu svæðum Blöndu í síðustu viku. Opnunarhollin á svæðum III og IV fengu tvo laxa hvort. Sjö manna hópi sem kom þar á eftir og var við veiðar á báðum þessum svæðum í þrjá daga varð ekki eins vel ágengt.



Tíðindi af löxum



Mannskapurinn kom sér fyrir í veiðihúsinu á Eiðsstöðum síðdegis á föstudag. Til skiptanna voru sex stangir; þrjár á svæði III sem er neðan útfalls Blönduvirkjunar og þrjár á svæði IV sem er ofan útfallsins og því tær þegar miðlunarlón virkjunarinnar er ekki á yfirfalli.

Frést hafði af því að lax hefði veiðst fyrstu tvo daga tímabilsins á hinum geysifallega stað Breiðunni á svæði IV og síðan tveir laxar neðst á svæði III. Skemmst er frá því að segja að fyrstu tvær vaktirnar urðu menn lítið varir við lax. Einn taldi sig þó hafa heyrt máttugt laxaskvamp í Skurðinum, sem er efsti veiðistaðurinn á svæði III. Hnippt var í færið hjá öðrum í Sandhólahyl en taldi sá að þar hefði urriði verið á ferð.



Ofurhugar í leiðangur

Fyrsta kvöldið sögðu reynslumeiri Blöndumenn í hollinu þeim yngri sögur af bleikju sem hafa mætti ef menn legðu á sig strangt ferðalag efst á svæði IV; upp í Rugludalshyl. Sá galli væri á gjöf Njarðar að ganga þyrfti ofan í snarbratt gil ofan af Eyvindarstaðaheiði – og upp þaðan aftur. Var ekki á ungu mönnunum að skilja að það yrði mikil fyrirstaða.

Varð úr að ungliðadeildin hélt fyrsta morguninn glaðbeitt upp í Rugludal. Sögðust þremenningarnir mundu snúa aftur í síðasta lagi klukkan tvö. Og væru þeir ekki komnir í hús klukkan fimm væri hinum velkomið að telja þá af og skipta með sér bjórnum þeirra og öðrum lausamunum.

Á meðan æskulýðurinn var á fjallinu huguðu hinir miðaldra að laxi. Sólin skein í heiði og mýið fór á kreik. Laxinn lét hvorki sjá sig né heyra.



Krökkt af bleikju



Framan af hádegishléinu spurðist ekkert til Rugludalsmanna. Loks þegar klukkan var langt gengin í fjögur sást mikil rykmökkur þokast eftir veginum ofan af Eyvindarstaðaheiði. Nokkru síðar renndu piltarnir í hlað á Eiðsstöðum.

Meginfréttirnar ofan úr Rugludal voru þær að þar væri pakkað af vænni bleikju á efstu veiðistöðunum. Komu drengirnir með fjögur sýnishorn því til sönnunar. Þeir voru sammála um að sjaldan hefðu þeir lent í annarri eins þrekraun og að ganga brattann upp á heiðina aftur. En ánægðir voru þeir og í sólskinsskapi.



Laxinn sýnir sig og tekur



Draga fór til tíðinda á næstu kvöldvakt. Þá sást fiskur í einum hyljanna um mitt svæði IV. Áhöld eru um nafnið á staðnum þar sem veiðikortinu ber ekki saman við aðstæður í Blöndudal. En staðurinn er merktur númer 410 og þar voru að minnsta kosti fimm laxar þetta laugardagskvöld. Fyrir þá voru settar margar flugur sem þeir litu vart við. Lax hélt sig í þessum hyl áfram en ekki tókst þar betur upp á næstu vöktum.

Á sunnudagsmorgun sást loks lax á Breiðunni. Hann tók þegar fimm mínútur lifðu af vaktinni. Veiðimaðurinn rak upp gól og hagræddi sér glottandi á bakkanum. Þá var fiskurinn af aftur. NEI!



Hirti línuna alla



Í framhaldinu tókst að setja í þrjá laxa neðarlega og neðst á svæði III. Allir þessir fiskar slitu sig lausa. Einn risalax lét ekki nægja að rífa sig af agninu heldur straujaði niður þungan strauminn með varnarlausan veiðimanninn titrandi á bakkanum löngu eftir að öll línan var farin út af hjólinu og horfin í heilu lagi út í Blöndu. Bless..!

Mynd / Garðar





×