Veiði

Torfastaðir: Ódýr valkostur fyrir laxveiðimenn

Trausti Hafliðason skrifar
Á Torfastaðasvæðinu í Soginu. Veiðimaður gerir allt klárt.
Á Torfastaðasvæðinu í Soginu. Veiðimaður gerir allt klárt. Mynd / Trausti Hafliðason
Sogið er mikil á. Það er 19 kílómetra langt og er áin vatnsmesta lindá landsins. Fjölmörg veiðisvæði eru í Soginu og þekktust eru líklega Alviðra, Ásgarður, Bíldsfell, Tannastaðatangi og Þrastarlundarsvæðið. Eitt svæði gleymist þó gjarnan en það eru Torfastaðir. Það er kannski ekki nema von að þetta svæði sé ekki komið inn á radar veiðimanna því ekki eru nema tvö ár síðan veiðileyfi fóru í almenna sölu.

Torfastaðasvæðið er í raun á milli Alviðru og Bíldsfells - á vesturbakkanum. Tvær stangir eru á svæðinu sem er um kílómetri að lengd og teygir sig frá ósum Tunguár og niður að Álftavatni. Allt aðgengi að svæðinu er með besta móti og í raun best að ganga á milli veiðistaða. Lítið veiðihús fylgir svæðinu. Þar er ekkert rafmagn en hins vegar er þar snyrting, lítið eldhús og svefnaðstaða.

Níu merktir veiðistaðir


Alls eru níu merktir veiðistaðir á svæðinu. Veiðikort með fínum veiðistaðalýsingum hangir uppi á vegg í veiðihúsinu en einnig er hægt að nálgast kortið í veiðibúðinni Veiðisporti á Selfssi þar sem veiðileyfin eru einnig seld.

Á silungatímanum, sem er frá 1. apríl til 25. júní, kostar stöngin frá 3 til 5 þúsund krónur. Undir lok júní fer laxinn að ganga upp á svæðið og kostar stöngin þá frá 8 þúsund krónum upp í 13 þúsund. Auk þess að vera gott bleikjusvæði hefur laxveiðin við Torfastaði verið með miklum ágætum síðustu tvö ár. Sumarið 2010 veiddust þar 103 laxar en 98 í fyrra. Leyfilegt er að veiða á flugu, maðk og spún.

Fyrir skömmu fjallaði Veiðivísir um ódýr laxveiðileyfi og var þar bent á 18 laxveiðiár þar sem leyfin kosta undir 20 þúsund krónum. Greinina má lesa hér.

trausti@frettabladid.is






×