Veiði

Frábær opnun í Hítará: 11 stórlaxar af 16

Hver áin af annarri opnar með látum. Hítará er full af laxi.
Hver áin af annarri opnar með látum. Hítará er full af laxi. Mynd/Bjarni Júlíusson
Veiði hófst í Hítará á Mýrum á mánudaginn. Mikið er af laxi í ánni miðað við árstíma og byrjunin ein sú besta sem um getur, segir á heimasíðu SVFR.

"Við náðum í skottið á veiðimönnum í morgun og höfðu þeir þá þegar landað 16 löxum og misst nokkuð. Átta þessara laxa voru stórlaxar yfir 70 cm og þrír yfir 80 cm. Öll áin er orðin virk, og sem dæmi þá veiddust tveir laxar í spútnikstað síðasta árs, Sveljanda. Venju samkvæmt er Breiðin aflahæsti staðurinn í opnunarhollinu, en í þetta sinnið er tæplega helmingurinn veiddur ofan Brúarfoss, í Langadrætti og Grettisstillum," segir í fréttinni.

Þess má geta að aðeins er veitt á fjórar stangir fyrsta hálfa mánuðinn.

Sem sagt frábær byrjun í Hítará og stórstreymt á morgun fimmtudag. Það lítur því vel út með veiði fyrir þá sem eiga veiðileyfi á næstunni. Þess má geta að í ljósi þess að lax er genginn Brúarfoss mega veiðimenn í Grjótá og Tálma búast við því að lax sé mættur í hliðarárnar.

Fyrir þá sem ekki hafa fest sér veiðileyfi í Hítará í sumar þá er það því miður of seint, því öll veiðileyfi á aðalsvæðið eru uppseld. Örfáir dagar eru hins vegar lausir í haust á svæðinu sem kennt er við hliðarárnar Grjótá og Tálma.

svavar@frettabladid.is






×